Haugurinn við Strönd

Hér segir Rannveig Einarsdóttir (1895-1990) frá Strönd í Meðallandi frá fornmannahaugi við Strönd og álögum honum tengdum.

Á Strönd var hóll, norður af bænum, aflangur með þúfu. Það var nú sagt að það væri haugur, að þar hefði einhver verið heygður. Og fólk var nú að ímynda sér að það gæti verið eitthvað gulls ígildi þar. Mér var sagt að það hefði einhverntíma verið grafið í hann en þegar þeir voru komnir eitthvað dálítið niður í hann þá hafi þeim verið litið austur á bæina, Efri-Eyjarbæina, og þá sýndist þeim þeir standa allir í björtu báli. Svo þeir hættu við gröftinn og það var ekki meira grafið þar.

En svo átti ég uppeldisbróðir, og við vorum einu sinni ein heima. Það þótti okkur fjaskalega gaman því þá fórum við stundum út í Kúðafljót og bundu reipi um annað en hitt fór úti í Hólma að athuga hvernig væri að vaða Kúðafljótið. Svo við tókum upp á þessu einu sinni þegar fólkið var að skera mel. Við höfum þá líklega verið um 11 ára. Við fórum með járnkall þarna upp í, okkur langaði svo ósköp mikið að vita hvað þarna væri. Og við reyndum að koma honum eins langt niður og við gátum. En hann kom niður á eitthvað hart, og þá bilaði nú kjarkurinn hjá okkur og við hættum. En þessi rimi var þarna ennþá síðast þegar ég kom í Meðallandið fyrir tveimur árum [1972], þótt mikið sé nú búið að slétta.

Frásögn Rannveigar Einarsdóttur frá Strönd í Meðallandi. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2595): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015141

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.