Hólmaselsklerkarnir

Aðeins tveir prestar þjónuðu kirkjunni að Hólmaseli í Meðallandi frá því að hún var byggð uns hún fór undir Skaftáreldahraunið 30 árum síðar. Hér segir Eyjólfur Eyjólfsson hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi frá þeim.

Presturinn í Hólmaseli var talinn dálítið mikillátur en hafi nú misst kjarkinn fullt eins mikið og aðrir þegar verulega reyndi á í Skaftáreldum. Hann var Borgfirðingur, ættaður frá Höll í Þverárhlíð og hét Björn Jónsson. Annars var ekki lengi kirkja í Hólmaseli. Hún var flutt þangað rúmum 30 árum áður en hún brann og var ekki nema 30 ár þar. Hún var flutt út af sandi hérna úti í Meðallandi og þarna upp eftir þar sem hættan hefur verið talin minnst. Aðal hættan hér í Meðallandinu hefur verið talin stafa af sandi en hin hættan sem var þó geigvænlegri reiknaði enginn með. Í Hólmaseli voru bara tveir prestar. Þessi Björn Jónsson sem að flúði þaðan burt og Halldór Högnason sonur Högna prestaföðurs á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Hann var einn af þeim mörgu prestum sem voru út af þeim séra Högna presta. Hann dó hér af slysförum, talið að hann hafi dottið af hestbaki og hálsbrotnað.

(Eftir sögn Eyjólfs Eyjólfssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar og Svend Nielsen í júní 1964 (SÁM 84/59): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001004

 

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.