Huldubær í túni Meiri-Tungu

Huldubær var í túni Meiri-Tungu sem áður hét Moldartunga. Engum sögum fer af huldufólinu utan að þegar plægt var þar laust fyrir 1930 reyndu verur þessar að stöðva verkið en tókst ekki. Huldufólksbærinn er í stórum kletti sem skagar út úr brekku rétt vestan við þar sem stóð áður Ranakot. Þar bjuggu á fyrri hluta 20. aldar Mensalder Raben Mensalderson og fóstra hans Margrét Jónsdóttir. Munnmæli sögðu að gamla konan vissi lengra nefi sínu. Varaði hún við að hróflað væri við túninu næst klettinum og svo fór að lá við stórslysi þegar álfarnir brutu plóg fyrir Helga Hannessyni fræðimanni sem þarna var við jarðvinnu. Steinn huldufólksins heitir Möngusteinn eftir fyrrnefndri Margréti sem lést 1933. Við lát hennar fór Ranakotið í eyði en kofarnir stóðu uppi og er sagt að fóstursonur hennar Mensalder hafi tekið fátt með sér af búsmunum þegar hann flutti. Lengi á eftir urðu menn varir við að Manga gamla gekk aftur og ríslaði með sín þing í Ranakotinu. Börn voru vöruð við að hreyfa þar ekki við nokkru og síst að færa nokkuð í burt af munum gömlu konunnar.
(Handrit Helga Hannessonar, KriBj)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.