Kolaburðurinn

Þeir framliðnu flæktust fyrir honum.
Einhverju sinni var Gísli á Melhól hjá frænda sínum Magnúsi í Selinu [Sandaseli í Meðallandi] og það var strand sem oftar. Fór Gísli í strandið og kom þaðan með tvo vagna hlaðna af kolum. Fer hann nú að bera kolin inn í draugakofann. Og það gekk nú ekki greitt, að hans sögn, því að þeir framliðnu flæktust alltaf fyrir honum, allsberir.

“Hva- voru þeir allsberir?” spurði ég.

“Já, menn hátta sig alltaf þegar þeir deyja í sjó,” sagði Gísli.

Og seinast var hann nú orðinn hálf leiður á þessu. Hann varð alltaf að ýta draugunum á undan sér, svo seinasta pokanum henti hann nú inn um dyrnar og lét hann eiga sig.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.