Þegar ég keyrði á Bugadrauginn

Skammt fyrir vestan Langholtsskurð liggur þjóðvegurinn upp á gömul rof. Þar heita Bakkakotsbugar og þarna er Bugadraugurinn frægi, annarsheims persóna. Margirhöfðu margir trú á að hann væri þar, en ég var víst oftar en einu sinni búinn að segja  að ég hefði nú ekki mikla trú á að þessi Bugadraugur væri til. Ég hafði nú svo oft verið þarna á ferð bæði í björtu og dimmu og aldrei orðið var við neitt.

Svo hefur það sennilega verið svona nærri 1970, að var ég þarna á ferð. Gísli í Kotey hafði verið að hjálpa mér að smala og ég fór með hann heim um kvöldið, náttúrulega á bílnum. Ég var þá á nokkuð nýjum Escort bíl með mjög góðum ljósum. Þegar ég fer svo heim um kvöldið var svona austan vindur og rigningarhraglandi og engin þoka, mjög gott sýni og ég keyrði nokkuð hratt. En þegar ljósin ná á þar sem vegurinn fer í gegnum rofin, en hann var mjórri og hærri þarna þá en nú og hækkaði á rofinu, þá stendur maður þarna á miðjum veginum í rofinu. Ég ætlaði nú ekki að fara að drepa manninn og var rétt kominn út af veginum við að víkja, en hann hreyfði sig ekki, en þegar ég kom að honum þá var þetta bara blá gufa. Hún lenti aðeins mín megin á brettinu, en ég sá að það gerði ekkert til, því að þetta mundi ekkert skaðast.

Svo sama haustið í svarta myrkri þá var ég á ferð þarna og var að koma heim þarna sunnan úr Meðallandi. En þegar ég kem þarna á rofin þá er allt í einu kominn maður í bílinn fyrir aftan mig. Ég fann þrýsting frá honum. Og ég vissi náttúrulega alveg hver þetta var, og var ekkert að líta við eða í spegilinn, passaði bara að hægja á ferðinni. Og þegar ég var kominn norður undir Langholtsskurðinn þá var hann horfinn úr bílnum.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.