Skjaldartjörn og Syngjandi

Hér segir Þórarinn Helgason (1900-1978) bóndi og fræðimaður frá Þykkvabæ í Landbroti frá nykrum í tjörnum í landi Kársstaða í Landbroti. 

Hér í Landbrotinu er tjörn sem heitir Syngjandi og í henni átti að vera nykur. Skjaldartjörn er á sömu slóðum, við Kársstaði í Landbroti. Í henni átti að vera boli sem dró á eftir sér húðina. Hann var þannig tilkominn að fláningsmenn gengu frá blóðvelli án þess að stinga hnífi í uxann. Það átti nú aldrei að vera óhætt að yfirgefa slíkan sláturgrip. Þótt það væri búið að skera af honum hausinn töldu menn ekki öruggt að hann stæði ekki upp nema það væri stungið í hann hnífi. Og það hafði gleymst og boli komst á fætur, það var búið að losa af honum mestalla húðina, hún hékk bara á rófubeininu. En þetta voru munnmæli og engar sérstakar sögur til um að menn hafi séð hann. En hvort sem það var vegna trúar eða ekki, þá var þetta venja sem menn yfirleitt tömdu sér, að yfirgefa ekki stórgrip án þess að stinga hníf í hann við slátrun.

Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/63). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1001055

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.