Álagabrekkan í Norður-Hvammi

Hér segir Rannveig Einarsdóttir (1895-1990) frá Strönd í Meðallandi frá álagabrekku í landi Norður-Hvamms í Mýrdal sem ekki mátti slá.

Í Norður-Hvammi var falleg brekka fyrir ofan bæinn. Í henni var einhver blettur, grasi vaxinn, sem að álitið var að ekki mætti slá. En svo var það einu sinni að piltur á bænum var að slá þar með föður sínum og segir: ,,ekki fer ég nú að láta eftir þennan blett, hann er svo fallegur og grasi vaxinn.“ Faðir hans segir: ,,Þú skalt ekki slá hann, það hefur ekki verið gert og það á ekki að gera það.“ En hann hlýðir ekki og slær blettinn. Svo eru þeir kallaðir heim í kaffi, morgunnskatt sem þá var nefndur.  En þegar pilturinn fer niður brekkuna dettur hann og lærbrotnar og liggur allt sumarið. Og það var nú álitið að það hefði verið af því að hann sló blettinn.

Frásögn Rannveigar Einarsdóttur frá Strönd í Meðallandi. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2594): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015140

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.