Álög á Meðallandsprestum

Meðallendingum hélst lengi vel illa á prestum sínum og fórust margir þeirra í sviplegum slysum. Hér segir Einar Sigurfinnsson (1884-1979) frá Háu-Kotey í Meðallandi frá álögum sem talinn voru hvíla á prestum sóknarinnar. 

Einu sinni sem oftar, þarna í Meðallandinu, þurfti að flytja kirkjuna undan sandfoki, kirkju og grafreit. Ég held að kirkjan hafi þá verið á Mel. Þá var nú ekkert farartæki annað til að flytja á annað en hestar og klakkar. Þá er sagt að pretikunnarstóllinn hafi snarast af hestinum sem bar hann og fallið ofan í læk. Einn af mönnunum sem var við flutninginn sagði: ,,Látum hann vera kyrran.“ Hinir vildu það nú ekki og þá segir þessi gamli maður: ,,Þá skulið þið ábyrgjast Meðallandsprestana því þeir verða ekki lengi hér upp frá þessu.“ Stólnum var bjargað þarna upp úr og notaður í næstu kirkju. En sagan segir að upp frá því hafi prestur aldrei verið lengur í Meðallandinu en 20 ár og flestir miklu styttri tíma. En nú (1964) er víst komið svo að Valgeir Helgason er búinn að vera þar talsvert lengur, en reyndar með mun stærra prestakall og öðruvísi.

Eftir sögn Einars Sigurfinnssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1964 (SÁM 93/3623) sjá: https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1046793

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.