Beðið fyrir pakka

Aka draugar bíl?
Ég spurði einu sinni Guðrúnu heitina í Nýjabæ hvort að hún hefði aldrei séð Bjarna sáluga í Hólmi á gamla Ford. Og hún sá hann einu sinni. Þetta var mjög sniðugt. Þetta var þegar peningaskiptin voru. Það var nú þarna einhver umferð. Það voru tveir sem voru orðnir á bílum fyrir utan Nýjabæ, það voru Siggeir í Holti og Magnús í Dalbæ. Guðrún þurfti að koma pakka á annan hvorn þeirra, sama hvor það væri. Svo sér hún, þegar það er orðið hálfdimmt, að það kemur bíll yfir Skaftá og hann beygir vestur svo hún snarast í veg fyrir hann. En hún komst aldrei nema rúmlega hálfa leið, hún þekkti bæði bílinn og manninn. Og hún lét það nú eiga sig að biðja hann fyrir pakkann þó Bjarni væri nú allra manna greiðugastur.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.