Bein Vigfúsar geysis

Strönd í Meðallandi

Hér segir Þórarinn Helgason (1900-1978) bóndi og fræðimaður frá Þykkvabæ í Landbroti frá einkennilegum fyrirburði sem varð til þess að bein förumannsins Vigfúsar Jónssonar geysis (1797-1867) fundust en hann hafði orðið úti nálægt Hunkubökkum. 

Langamma mín, Sigríður, var húsfreyja á Hunkubökkum. Amma mín var fædd 1833 en hvenær Sigríður dó veit ég ekki. En sá var háttur Sigríðar, að þegar að hún missti tennur, þá geymdi hún þær, setti þær í prjónastokk á hillu í baðstofunni. Hún hafði gert svo ráð fyrir, að þegar að hún dæi, þá yrði prjónastokkurinn með tönnunum lagður í kistuna.

Svo kemur nú að því að Sigríður deyr, og hún er flutt til grafar að Prestbakka. Það var farið austur úr svokölluðum Sniðum, líkfylgdin fór þar, þetta eru flágar fyrir austan bæinn á Hunkubökkum, krókótt leið og ógreið. En það var hægt að komast skemri leið beint yfir heiðina og komast þá á veginn sem að liggur austur. Nú hafði það gleymst að taka þennan prjónastokk, og láta hann í kistuna, með Sigríði. Tvær gamlar konur voru heima á bænum þegar að líkfylgdin fór, og áttu að gæta bæjar. En þegar að líkfylgdin er fyrir nokkru farin, þá ber svo við að prjónastokkurinn fellur niður af hillunni og niður á gólf. Og þá hrökkva gömlu konurnar við og minnast þess að Sigríður hafði gert ráð fyrir því að stokkurinn ætti að fylgja sér í gröfina.

Önnur þeirra bregður nú við og fer með stokkinn á eftir líkfylgdinni. En til að stytta sér leið fór hún ekki þessa leið sem líkfylgdin fór, heldur skemmri leiðina yfir heiðina og hugðist þannig vinna upp tíma og ná þannig í líkfylgdina. Sem henni tókst. En á þessari leið yfir heiðina, þá finnur hún mannabein sem að seinna reyndust bein Vigfúsar geysis sem að hafði orðið úti á milli Hunkubakka og Kirkjubæjarklausturs og ekki fundist. Svo það var nú eins og þarna tengdist það einhvernmegin þessari gleymsku, að koma þessum kistli með tönnum Sigríðar í tæka tíð, að bein Vigfúsar geysis fundust þarna. En gilið sem beinin fundust í er nú kennt við hann og nefnt Geysisgil.

 

Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/63). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 sjá https://www.ismus.is/i/audio/uid-48d6ccfc-a526-4fad-a964-a0afd7842197

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Tengdar sögur

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.