Bílljósin við Grænlæk

Árið 1945 varð ég fyrir sérstakri lífsreynslu nálægt þeim stað sem gamli vegurinn lá yfir Grænlæk.

Þá fór ég á ball ásamt Hjalta Guðmundssyni á Steinsmýri. Það var verið að enda slátrunina á Klaustri og var dansskemmtun í því tilefni. Við fórum þarna nokkuð seint uppeftir á hestum við Hjalti og þegar við komum uppfyrir Grænlæk þá var komið svartamyrkur og rigningarsúld, það var á austan og svartarigning. Dálítið norðar en þar sem er farið yfir Grænlæk er háls og þegar við erum að fara upp hálsinn  kemur allt í einu bíll á móti okkur. Og hann er bara alveg að koma þegar við tökum eftir honum, ljóskeilurnar hvimuðu yfir okkur og heyrðist svo vel hvernig rokkurinn gekk í bílnum. Hann virtist vera alveg í fínu lagi. Ég var á trylltum hesti sem að var náttúrulega mjög óvanur bílum og hljóp af baki til þess að klárinn fældist ekki undir mér. Og svo skipti það bara nokkrum metrum að við erum komnir upp á hálsinn og þá slokkna ljósin og ekkert heyrist meir og þar er enginn bíll.

Satt að segja áttu nú stundum að hafa sést þarna bílljós eftir að Bjarni heitinn í Hólmi dó og ég hafði nú enga trú á þessu en ég fór nú að hugsa hvort þetta hefði nú ekki verið Bjarni sálugi á gamla Ford sem fór þarna um alla hóla eftir því sem best lét og var mjög laginn að komast áfram þó snjór væri og bíllinn á einu drifi. Þetta voru léttir bílar og á stórum hjólum. En þetta var mjög sérstakt af því að við vorum þarna tveir sem sáum þetta.

 

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.