Dætur Magnúsar lögmanns Ólafssonar

Guðríður fann er menn voru feigir

Þau hjón Magnús lögmaður Ólafsson og Ragnheiður Finnsdóttir biskups áttu dóttur er Þóra hét. Hún varð aðeins 4 ára. Það var merkilegt um hana að þegar hún hafði fengið málið fór að bera á því að oftast nær gat hún á morgnana sagt fyrir hvort gestir kæmu um daginn, hvernig þeir yrðu klæddir, hvort þeir mundu sitja meðan þeir stæðu við, o.s.frv. Þetta var kallað ,,bull” í fyrstu. En svo var því hætt er reynslan sýndi að það sem hún sagði fyrir gekk ævinlega eftir.

Aðra dóttur áttu þau er Guðríður hét. Hún náði fullorðinsaldri. Hjá henni brá forspá oft fyrir. Fór hún þó dult með. Hún var alin upp í Oddgeirshólum hjá Steindóri sýslumanni, bróður Ragnheiðar. Hann arfleiddi hana og bjó hún á Oddgeirshólum eftir hann. Maður hennar var Stefán Pálsson, prests á Þingvöllum, Þorlákssonar. Steindór hét son þeirra en Sigríður dóttir. Steindór var snemma atgervismaður og að öllu hinn efnilegasti. Sigríður var veikbyggð og óhraust á heilsu lengi framan af.

Steindór lærði í Bessastaðaskóla. Þá er hann var þar, en þær mæðgur heima, tók Sigríður eftir því á laugardaginn fyrir páska að móðir hennar var venju framar föl og döpur. Spurði Sigríður hvort hún væri veik. Hún sagði það væri ekki. Sigríður spurði hví hún væri svo föl og döpur. Hún svaraði:

Það kemur eitthvað fyrir á þessum degi að ári sem hefur mikla þýðingu fyrir ykkur, börnin mín.

Næsta haust eftir þetta fór Sigríður að Sviðholti með bróður sínum er hann fór í skóla. Var hún þar um veturinn við nám. Þann vetur lét Guðríður það á sér skiljast að hún byggist við að eiga skammt eftir ólifað. Og á laugardaginn fyrir páska fór hún í sparifötin og sagði að sín mundi verða vitjað í dag. Það var svo að skilja að hún bjóst við að deyja um daginn. En er degi hallaði og hún var heil heilsu sagði hún eins og við sjálfa sig:

Það verður þá ekki ég í þetta sinn, það verður annað hvort barnanna minna.

Þann dag drukknaði Steindór, son hennar, á Skerjafirði. Var sóknarprestinum séra Sigurði Thorarensen í Hraungerði, tilkynnt lát hans en hann átti að segja foreldrum hans. Þá er síra Sigurður kom að Oddgeirshólum þess erindis var Guðríður ekki við bæinn, hún hafði gengið á leið með vinkonu sinni. Var sent eftir henni og sagt að prestur væri kominn. ,,Ég veit erindi hans,” segir hún og fer heim. Prestur kom á móti henni á hlaðinu og vildi heilsa henni. En hún varð fyrri til máls or spurði: ,,Hvort barnanna minna er dáið?” Hann sagði að það væri Steindór. ,,Ég bjóst fremur við,” sagði hún, ,,að það væri Sigríður.” Hún var heilsulítil. En það vissi ég að ég var búin að missa annað hvort þeirra.

Þá er gestir komu að Oddgeirshólum var Guðríður vön að bera þeim mat sjálf og bera leifar af borði. Vissi hún jafnan ef einhver þeirra var feigur, þá gat hún ekki borið leifar þess manns af borði fyrir einhverri óbeit sem hún sjálf skildi ekkert í. Þá er vinnumenn frá Oddgeirshólum fóru til vers var Guðríður vön að ganga úr hlaði með þeim . En einu sinni þá er vinnumaður sá er Oddur hét fór í verið gat hún ómögulega komið sér til þess að fylgja honum úr hlaðinu fyrir einhverri ósjálfráðri óbeit. Sagði hún svo er hann var farinn að honum mundi ekki afturkomu auðið. Það rættist, hann drukknaði um veturinn.

Maður Guðríðar kaupir hest án þess að ráðfæra sig við konu sína

Stefán, maður Guðríðar, átti reiðhest, hvítan að lit, fyrirtaks gæðing. Þótti honum mjög vænt um hann og Guðríði eigi síður. Þar kom að honum þótti nauðsynlegt að geta hlíft Hvítingi við og við. Samdi hann við Rangæing einn um að selja sér efnilegan fola og færa sér hann á tilteknum tíma. Þennan samning gerði Stefán án vitundar Guðríðar. Mun hann hafa hitt Rangæinginn á ferðalagi, því annars var hann vanur að ráðgast við konu sína um hvað sem var. Þá er hann sagði henni frá þessum samningi varð henni bilt við og bað hann að fá honum brugðið, sér segði þunglega hugur um þessi kaup. Hann vildi ekki fyrir nokkurn mun bregða orðum sínum og fór hann eigi að ráðum hennar í þessu. Þetta var hið eina sem hann gerði henni á móti skapi en aldrei neitt annað. Daginn sem von var á folanum hlakkaði Stefán mjög til að sjá hann og lét í ljós óvenjulegt bráðlæti. Folinn kom á réttum tíma. Hann var mjög fallegur, hvítur að lit nema eyrun og höfuðið að ofan og svo taglið, þar var hann svartur. Hann hét Höttur. Hafði Stefán hann síðan fyrir reiðhest ásamt Hvítingi og var hann góður hestur en þó var Hvítingur enn fótliðugri. Hélt Stefán jafnt upp á báða hestana en Guðríður mátti aldrei sjá Hött. Kæmi hann heim á hlaðið með öðrum hestum þá bað hún leiða hann þangað sem hún hefði hann ekki fyrir augum. Sagði hún að í hvert sinn sem hún sæi hann þá legðist eitthvað illt í sig, án þess hún skildi neitt í því.

Hugboð hennar rættist. Maður hennar drukknaði af Hetti í ósi þeim er Stóri-Ós heitir, milli Auðsholts og Unnarholts. Þar er tæpt vað. Var ætlað að Höttur hefði misst fóta og steypst í hylinn. Um þetta sagði Guðríður:

Það var lengi hugboð mitt að Höttur mundi að slysi verða. Hvítingur hefði komist þetta slysalaust. En dregst til þess sem verða vill.

Það hafði Guðríður oft sagt að aldrei gæti hún gert sér grein fyrir hvernig á því stæði er hugur sagði henni eitt eða annað. En hugboð hennar kom jafnan fram.
Sigríði, dóttur hennnar, átti síra Jóhann Briem, prófastur í Hruna og varð orðlögð merkiskona. Hún hefur sagt mér frá þessu.
(Sögn Sigríðar Stefánsdóttur (1826-1904) í Hruna. Sigríður sagði Brynjúlfi Jónssyni frá Minna-Núpi þessa sögu og hún er fyrst skráð í: Dulrænar smásögur teknar eftir skilgóðum heimildum [2. útgáfa], bls. 55-57. Íslenskt þjóðsagnasafn. 3. bindi. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 254-256)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.