Dalsdraugurinn

Hverfisfljót og Skaftáreldahraunið

Hverfisfljót og Skaftáreldahraunið. Ytri-Dalur fór undir hraun en hann stóð vestan við Dalsfjall. (Ljósm. LM)

Áheitin dugðu þó karltetrið hrykki upp af. 

Ytridalur hét bær einn í Kálfafellskirkjusókn er lagðist í eyði í jarðeldinum 1783. Þar bjó í fyrndinni maður og kona hans og faðir þeirra annars hvors karlægur. Það var þá venja flestra manna að heita á karl þennan í ýmsum efnum og þókti vel verða til áheits. Fór svo fram um langa tíma og var þeim hjónum fært áheitið. Karl þessi dó án þess almenningur vissi því þau leyndu dauða hans. Allt að einu fór með áheitin, að karltetrinu vildi vel til.

Einn maður var það er sjálfur vildi færa honum áheitið. Var maðurinn undan Eyjafjöllum og færði honum harðan fisk. En er hann fékk karlinum fiskinn segir hann: „Hart, hart!“ Heyrði þá maðurinn hvernig á stóð og þeytti fiskinum hermilega í karlinn. Það er síðan að málshætti haft er karlinn sagði.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 298).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.