Draugahver

Hjá Grafarbakka í Hrunamannahrepp eru margir hverir. Skammt þaðan er bær sem heitir Reykjardalur; þar bjó kona fjölkunnug. Hún öfundaði konuna á Grafarbakka af hverunum sem spöruðu henni eldivið. Vakti hún þá upp draug og skipaði honum að sækja einn góðan hver fram að Grafarbakka og koma með hann upp að Reykjardal. Draugurinn fór og tók upp einn hverinn og bar hann í höndum sér eins og strokk. En þegar hann var kominn nokkuð á leið þá dagaði hann uppi; sleppti hann þá hvernum og er hann þar síðan, nokkuð langt burt frá hinum hverunum, og heitir Draugahver.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, bls. 659).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.