Draugur í rauðri peysu

Jón drukknaði og ásótti konu sína, Hallfríði, árum saman þar til Jóni presti tókst að stefna honum í Bolabás, sem er austanvert við Dyrhólaey

Á þeim árum 1760-1770 bjó bóndi sá á Vatnsskarðshólum í Dyrhólasókn, sem hét Jón. Kona hans hét Hallfríður, stjúpdóttir Hávarðar hreppstjóra Einarssonar, kirkjuhaldara á Sólheimum til 1768. Jón var formaður í Dyrhólahöfn og þótti vera dágóður formaður, í meðallagi heppinn að fiska. Kot var þá eitt í Dyrhólahverfi, er Skvetta hét. Það er nú í eyði en sér þó til bæjartótta. Í Skvettu bjó þá ekkja gömul, er Guðríður hét, og þótti hún spá furðu rétt um aflabrögð í Dyrhólahöfn. Stundum sagði hún fyrir, hvernig ganga mundi á sjónum þann og þann daginn. Einhverju sinni sem oftar reið Jón til sjós, og lá leið hans um túnið í Skvettu.

Þegar hann reið framhjá Skvettu, stendur konan þar í bæjardyrunum og heilsast þau Jón. Kerling spyr, hvort Jón muni róa í dag. “Ég ræ í dag,” segir Jón. “Ef Guð lofar, hefur þú ætlað að segja, Jón minn,” segir kerling. “Ég ræ í dag, hvort Guð lofar eða ekki,” segir Jón, og skildu þau við það. Jón heldur leið sína til sjós.

Sjór var vondur, og stóðu menn lengi í sandi en reru, þegar á leið daginn. En þegar þeir hafa stutta stund setið, fór sjór aftur að versna. Róa þá allri heim, en Jón varð síðastur. Þegar þeir koma innundir, ræða hásetar Jóns um að sjór muni ófær vera, ekki lendandi. “Eigi mun svo vera,” segir Jón, “því komast mun ég í rúmið til Hallfríðar minnar í kvöld.” Liggja þeir nú eftir lagi í land og lenda, en skipinu hvolfdi í lendingunni, og drukknuðu nokkrir af skipshöfninni, og þeirra á meðal Jón.

Sama kvöldið, um háttumál, kemur Jón í rúmið til Hallfríðar. Var hann að öllu búinn eins og hann hafði farið að heiman, nema hattlaus. Gerðist nú afturganga Jóns svo mögnuð að Hallfríður flúði frá Vatnsskarðshólum og fór til fóstra síns að Sólheimum. Fyrst í stað eftir burtför Hallfríðar sást Jón, þegar dimma fór, á Vatnsskarðshólum, og var hann auðþekktur á búnaðinum. Hann var í rauðri prjónapeysu og mórauðum buxum. Bar mest á peysunni, og sáu menn oft aðeins peysunni bregða fyrir, þar sem draugsi fór. Ekki gerði hann mein neinum manni en hræddi margan og þvældist fyrir vinnukonum. Féllu þær oft um hann og dembdu niður mjólk eða brutu ílát.

Brátt tók draugur þessi að heimsækja Hallfríði að Sólheimum, og var sú orsök til þess, að eldabuskan á Vatnsskarðshólum vísaði honum þangað. Hafði draugsi dembt niður flotskál fyrir henni og reiddist hún þeirri glettni hans og sárnaði að missa flotið. Sagði þá eldabuskan í gáleysi að honum væri nær að heimsækja Hallfríði að Sólheimum heldur en að bekkjast við sig. Eftir það hvarf hann frá Vatnsskarðshólum.

Sást þá til ferða hans um bjartan dag, er hann var á leið til Sólheima, og þekktist hann jafnan á rauðu peysunni. Ekki gerði hann öðrum mein en Hallfríði. Ásótti hann hana mjög og varnaði henni svefns og næðis. Fór svo fram um hríð að henni varð ekki svefnsamt, nema Hávarður fóstri hennar lægi fyrir framan hana. Draugurinn lagði ekki að honum fyrst í stað, en svo ágerðist ásókn hans að hvorki naut næðis Hávarður né Hallfríður. Varð draugsins þá vart bæði úti við og inni, svo til vandræða horfði, og var jafnan nefndur Rauði draugur eða Draugur í rauðri peysu.

Þá var Jón Guðmundsson prestur á Felli. Þótti hann vita jafnlangt nefi sínu, og leitaði Hávarður til hans um ráð við afturgöngunni, en ekkert dugði. Þá bar það við einu sinni, að séra Jón var á leið frá Sólheimum, að hann mætti draugnum milli Sólheimaness og Péturseyjar. Kastar hann orðum á draugsa og sagðist hafa stefnt honum í Bolabás, sem er austanvert við Dyrhólaey. Hætti þá ásókn hans við Hallfríði, og varð hún hans aldrei vör síðan. En eftir þetta heyrðust oft óhljóð í draugnum og öskur í Bolabás. Hallfríður varð jafngóð og giftist austur í Reynishverfi.

Jón Ólafsson bóndi í Pétursey hefur fært þessa sögu í letur að mestu eins og hún er hér skrifuð. Lítið eitt bætt í eftir munnmælum, svo sem um eldabuskuna á Vatnsskarðshólum, sem kona gömul, Solveig að nafni, fullyrti að ætti að vera rétt. En neðan við söguna setur Jón Ólafsson: “Þessa sögu sagði mér gömul kerling, Guðrún að nafni, Jónsdóttir, að mig minnir ættuð austan úr Hornafirði. En í móðuharðindunum kom móðir hennar að Sólheimum og bar tvö börn í poka, bæði á fyrsta ári. Tók Hávarður á Sólheimum annað barnið af meðaumkun og ól það upp. Var það þessi sama Guðrún. Var hún því stallsystir Hallfríðar. Guðrún dó hjá föður mínum á níræðisaldri.

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson fra Hvoli; Þórður Tómasson frá Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn Örlygur, 1981: 85-87)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.