Einkennilegt skip

Ár 1912, í júnímánuði, reri Erlingur Brynjólfsson bóndi og formaður á Ytri-Sólheimum til fiskjar snemma morguns, eða um kl. 2 að nóttu til. Hann vænti ekki fiskjar á grunni og reri eindregið út á djúpið. Skipið sitt hafði hann þá á Melnum, sem er forn og nýr lendingarstaður frá Pétursey og Sólheimum. Laust fyrir dagmál þennan sama dag tekur unglingspiltur í Pétursey eftir því, að bátur kemur róandi beint utan úr djúpi og stefnir á lendinguna á Melnum. Drengurinn hleypur til húsbóndans og segir af skipinu og hvað sér sýnist það allt öðruvísi en skip Erlings. Árni Jónsson bóndi í Pétursey, sem að allra áliti var glöggur og greindur maður og gjörkunnugur öllu til sjós, gætir strax að þessu. Hann sá, eins og drengurinn hafði sagt, að róðrabátur er á leið til lands og heldur beint inn með óvenjumiklum róðragangi. Sýndist hann vera drekkhlaðinn. Í kíki sá hann svo glöggt áraburðinn, og sáu nú samtímis þrír til bátsins.

Áraburðurinn var jafn að sjá, og komu árar allar samstundis í sjó, freyddi framundan stafni og röst á eftir. Svo glöggt sáu þeir allir þetta. En sökkhlaðinn sýndist þeim báturinn vera, og þegar nær landi dró, hvarf hann með öllu meira, svo varla sá á borðstokka, nema stafnana. Rétt um það leyti, er hann kom innundir fjöruna, sökk hann og sást ekki koma upp aftur.

Að vísu var þessi bátur á sjó að sjá ólíkur Erlingsbátnum, samt héldu þeir að hann væri þetta og hefði ofhlaðið sig á djúpinu. Safnast Péturseyjarmenn brátt saman og ríða suður á Mel ef eitthvað mætti takast til björgunar. Auðséð var þó um afdrif bátsins. Þeir sjá engin vegsummerki við sjóinn, sjórinn ládauður og rekald ekkert. En brátt eygja þeir, hvar Erlingsbáturinn kemur úr djúpinu, og var þá laust af hádegi. Erlingur lenti þar með lítinn afla og hafði ekki á grunninn leitað.

Þeim mörgu, sem sáu þennan einkennilega bát, gat ekki skilist að um missýningu væri eina að ræða. Nokkru áður höfðu menn séð þessum líkan bát á sjó suður frá Stórasteini, en ekki svo lengi og greinilega sem þennan.

Sagt af Árna í Pétursey og fólki hans.
(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson fr. Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981. Bls. 105-106)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.