Flosahellir

Fjársjóðskista í Flosahelli

Þegar Flosi reið frá Njálsbrennu er sagt að hann hafi leynst í Þríhyrningi og haft hesta sína uppi í dal þeim á fjallinu sem við hann er kenndur síðan og kallaður Flosadalur. Sjálfur hafðist hann við í helli þeim sem er í fjallinu útnorðanverðu og síðan heitir Flosahellir. Sá hellir sést enn og er þvernhípt bjarg bæði ofan og neðan að honum og eigi fært að nema í sigi. Í helli þessum lét Flosi verða eftir gullkistu eina. Mælti hann svo fyrir að sá einn skyldi hafa not fjár þessa sem héti eftir sér en enginn annar.

Einn bóndi hefur reynt að ná fénu. Komst hann í hellinn, fann þar kistu og stóð lykillinn í skránni. Bóndi lauk þá upp kistunni og hugsaði sér nú til hreyfings. En hann sá ekkert fémætt í henni en full var hún af grávíðilaufum. Bóndi reiddist og hugðist ekki oftar mundi þangað fara og láta Flosa svo gabba sig eins hættulegan veg. Hann tók þó fullan sjóvettling með sér af laufinu til sýnis. En þegar hann kom ofan á jafnsléttu  leit hann í vettlinginn og sá nú að hann var fullur af silfri. Sá hann nú að hér voru brögð í tali og þorði ekki að fara upp aftur í hellinn, því hann hugsaði að vættur sú sem sér hefði gert sjónhverfinguna mundi þá beita öðrum brögðum og þótti honum ekki færilegt að hætta sér þannig oftar. Aldrei fór hann síðan í hellinn og enginn hefur þangað annar farið.

(Íslenskt þjóðsagnasafn. 4. bindi. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 29-30)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.