Guðmundur Eyjólfsson austanpóstur

Landpóstar nutu mikillar virðingar í samfélagi sínu og þóttu oftar en ekki miklir atgervismenn. Hér segir Einar Sigurfinnsson frá Háu-Kotey í Meðallandi frá einum slíkum, Guðmundi Eyjólfssyni frá Grímsstöðum í Meðallandi.

Guðmundur Eyjólfsson á Grímsstöðum, ég man eftir honum, hann dó þegar ég var að verða fullorðinn maður. Hann var austanpóstur um tíma. Það er nú skráð um hann í söguþætti landpóstanna. Hann var sterkur maður og duglegur. Það var einu sinni hvalreki á Meðallandsfjörum, austurfjörum sem kallaðar voru, og nokkuð langt til bæja. Og það er sagt að hann hafi borið sinn skurðarhlut af hvalnum, líklega tólf fjórðunga að sagt var, á öxlinni í snæri og heim til sín. Og ekki orðið neitt um og gat talað fullum fetum við samferðamennina á leiðinni og sagt þeim ýmislegt. Guðmundur var viðræðugóður og mjög fróður og skemmtilegur maður. Það er sagt að það hafi runnið upp úr honum fróðleikurinn þótt hann væri með þessa tólf fjórðunga á öxlinni. Samt hafi það verið seinasta kaflann, að þá tók hann af sér annan vettlinginn og setti undir snærið á öxlinni, sjálfsagt þá farinn að finna eitthvað til. Hann var afburðahraustur maður, Guðmundur. Og hann var austanpóstur alla leið austur á Eskifjörð á tímabili, frá Prestbakka eða Kirkjubæjarklaustri.

(Eftir sögn Einars Sigurfinnssonar. Viðtal Hallfreðs Arnar Eiríkssonar í nóvember 1967 (SÁM 89/1736): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1005923

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.