Höfðabrekku-Jóka

Jóka og Guðmundur Teiknir

Jóka og Guðmundur. Teikning J. Laczkowski

Höfðabrekku-Jóka var öflug afturganga sem margar sögur eru til um.

Höfðabrekku-Jóka hét upprunalega Jórunn og var dóttir Guðmundar Vigfússonar, bróður Orms í Eyjum. Vigfús hét maður hennar Magnússon frá Kirkjubæ. Þau áttu sjö börn, og var eitt þeirra dóttir, sem Ólöf hét. Hún gat barn í föðurgarði með manni þeim, er Guðmundur hét Þorvaldsson, og var það hann, er varð að flýja undan afturgöngu Jóku út í Vestmannaeyjar. Jóka sótti mjög eftir að komast út í Eyjarnar og var eitt sinn komin upp í skip, sem ætlaði til Eyjanna. Maður einn skyggn sá hana og mælti: “Ætlið þið að flytja djöfulinn í stafninum hjá ykkur?” Við það stökk Jóka fyrir borð og sást ekki síðan. Guðmundur átti að vera full tuttugu ár í Eyjunum, en fór til lands á tuttugasta ári, og drap Jóka hann jafnskjótt og hann sté fæti á land.

Eftir það hitti Magnús prestur á Hörgslandi Jóku og mælti: “Skólítil ertu núna, Jóka,” – því hún var gengin upp að hnjám. Jóka svaraði: “Nefndu það ekki, mangi.” Þá mælti prestur: “Illa hefur þér farnast.” “Ekki eru betri sjálfs klækir en annarra,” svaraði hún, og fóru viðskipti þeirra eftir það eins og segir þar, sem til er vísað.

Oft sást Jóka ríða til kirkju með fólki, og eitt sinn reið hún flókatryppi. Þá sagði Jóka: “Allir ríða vel, en þó ríður Jóka best.” Oft skammtaði Jóka líka afturgengin í búri sínu. Eitt sinn, er hún gerði það, sagði maður við hana í gamni: “Hönduglega ferst þér þetta enn.” Jóka svaraði: “Lítið kefður að því, en ætti ég að skammta Gvendi, skyldi hann ekki svelta til lengdar,” – og átti hún þá við Guðmund Þorvaldsson. Í annað skiptið starfaði Jóka í búri, og mælti þá maður við hana í gamni: “Gefðu mér smér, Jóka.” “Ertu þá maður til þess að taka á móti því?” svaraði hún. Hann kvað svo vera. Kastaði Jóka þá smérbelg á manninn svo fast, að honum lá við bana.

(Sigrún Lilja Einarsdóttir. Kyngimögnuð náttúra – Þjóðsögur og sagnir – Mýrdalshreppur – Land og Saga. Átthagafræði í 1100 ár, bls. 81. Fræðslunet Suðurlands. Selfoss 2005)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.