Hólmasel og Skúli fógeti

Menn höfðu ýmsar skýringar á Skaftáreldahamförunum. Hér segir Einar Sigurfinnsson (1884-1979) frá Háu-Kotey í Meðallandi frá samferðamanni sínum sem taldi Skúla fógeta hafa haft eitthvað með hamfararnir að gera.

Ég var einu sinni á ferð, og með okkur var gamall maður, fróður og skemmtilegur. Við áttum leið fram með Skaftáreldahrauninu frá 1784. Við fórum að tala um það hvað það hefði nú farið mikið land undir hraunið. Og þá segir þessi gamli maður, sem er mér ógleymanlegt: ,,Já, að hugsa sér að þetta skyldi koma fyrir eins manns kjaft.“ ,,Nú, heldur þú að það sé nú orðsökin“ spyr ég. ,,Já, bara fyrir eins manns kjaft. Því ég skal segja þér, karltetur“, en hann hafði þetta máltæki, „að Skúli fógeti var á ferð, vondur og vitlaus eins og hann var vanur, og hann kom að Hólmaseli til séra Björns, og sleppti þar hestum í túnið. Séra Björn varð vondur, því hann var bráður og grimmur, og setti hundana í hestana og hestarnir hlupu suður upp undir Staðarholt og það varð að elta þá. Og þá segir Skúli: ,,Það er ekki víst að þú þurfir að siga úr túninu næsta sumar.“ Og viti menn, næsta vor riðu eldarnir yfir og eyðilögðu meðal annars tún og bæ og kirkju í Hólmaseli. Svo það er eins og ég segi, það var fyrir eins manns kjaft að þetta hraun kom.“

Eftir sögn Einars Sigurfinnssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1964 (SÁM 93/3623) sjá: https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1046792

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.