Hörgslands-Móri rekinn út

Hörgslandsmóri á ferð í Vík í Mýrdal

Hörgslandsmóri var afturgenginn hundur, sem vakinn hafði verið upp volgur. Var hann svo magnaður til að byrja með, að það þurfti að skammta honum mat, svo sem frá er sagt í þjóðsögum Jóns Árnasonar. Um aldamótin síðustu var svo af honum dregið, að hann virtist máttlítill orðinn og dró afturhlutann. Ragnhildur Gísladóttir, kona Erlends Björnssonar, sá Hörgslandsmóra ekki sjaldan í Víkinni á undan komu þeirra, sem hann

fylgdi, og lýsti hún honum fyrir mér.
Þá kom það og fyrir, að lítil stúlka, á þriðja ári, sagði allt í einu við móður sína:

“Nei, mamma, sko, ljóta, mórauða hundinn þarna,” og sístaglaðist á þessu og sagði, hvar hann væri í stofunni. Enginn annar, sem þar var inni, sá neitt. En rétt á eftir kom þangað bóndi úr Dyrhólahreppi, sem Hörgslandsmóri fylgdi. Þurfti þá ekki fleiri vitna við.

Og einu sinni kom Hörgslandsmóri inn í kofann, þar sem þau Högni og Steinunn áttu heima. Tók Steinunn hraustlega á móti honum og rak hann öfugan út.

Þetta gerðist þegar ég var í Víkinni, fyrir 50 árum, en síðan hef ég ekkert heyrt um Hörgslandsmóra.

Sögn Ragnars Ásgeirssonar

(Skrudda: sögur, sagnir og kveðskapur/ skráð hefur Ragnar Ásgeirsson. Reykjavík: Búnaðarfélag Íslands, 1957, bls. 290-291)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.