Hörgslandsmóri á Efri-Eyjarbæjum

Hér segir Rannveig Einarsdóttir (1895-1990) frá Strönd í Meðallandi frá heimsóknum draugsins Hörgslandsmóra á Efri-Eyjarbæina þegar hún var ung.

Þegar ég fluttist utan út Mýrdal eftir að hafa búið þar í tvö ár, þá fór ég austur að Efri-Ey. Þar bjó þá systir mín, og ég fór sem vinnukona til hennar. Við komum að kvöldi þangað. En svo vakna ég um morguninn, um fimmleytið og var altekinn, það lá eitthvað ofan á mér og ég gat ekki hreyft mig eða talað. Ég vissi ekkert hvað þetta var, enda bara unglingur, en var nú hálfhrædd. En svo finn ég að þetta fer að mjakast ofan af mér og fer seinast ofan af fótunum. Og þá er ég glaðvöknuð, þetta er eitthvað um klukkan átta um morguninn, sem að þetta er búið. En þegar að ég er nýkomin á fætur, þá kemur vinkona mín sem ég átti í æsku og henni fylgdi Hörgslandsmóri, það var hennar ætt. Auðvitað sagði ég ekki frá þessu, en ég fór að hugsa þetta þegar ég fór að eldast, hvað þetta myndi hafa verið, þegar ég fór að heyra meira sagt um þetta.

Mamma mín, hún var ljósmóðir þarna í Meðallandi. Það var eiginlega fjórbýli, og það hét Miðbær þar sem hún var en svo Hóll, næsti bær við. Þar voru hjón sem áttu mörg börn. Einu sinni um sumar, það hefur verið svona miður september og vel farið að skyggja að kvöldi, þá er hún sótt að sitja yfir konu, húsmóðirinni á Hól. Það er örstutt á milli bæja. En þegar hún er komin á miðja leið, þá sér hún mórrauðan hund sem situr á þekjunni. Þarna var gömul kona, niðursetningur, úr ættinni sem Hörgslandsmóri fylgdi og þetta var einmitt yfir rúminu hennar. En þegar mamma nálgast bæinn sér hún að hann fer að hreyfa sig, og fer niður og dregst þá allur niður að aftan. Og við það hverfur hann.

Frásagnir Rannveigar Einarsdóttur.Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2594): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015136  og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015137

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.