Hrafninn við Breiðbalakvísl

Skaftfellingar, líkt og aðrir Íslendingar, höfðu ríka trú á hrafninum. Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1876-1965) frá Heiði á Síðu frá hrafni sem hjálpaði honum á ferðalagi , líklega á þeim árum sem hann var vinnumaður á Hörgslandi á Síðu, og síðan frá feigðarspá þeirra á undan andlátum bænda í sveitinni. 

Einu sinni var ég að flytja lækni, það var nú reyndar ekki lærður læknir heldur hómópati. Þetta var Runólfur Bjarnason, bóndi í Hólmi í Landbroti. Þegar ég fer til baka, búinn að flytja hann heim, þá fer ég austur Sanda og yfir svokallaða Breiðbalakvísl. Þessi kvísl var mjög vond. En þegar ég kem austur fyrir kvíslina, þá var mikið svell og komnir skorningar í ísinn. Það hafði verið frostleysa síðustu þrjá daga og rignt mikið. Ég ætlaði að fara eftir áveitugörðum en hestarnir vildu þá ekki fara yfir fyrsta skorninginn svo að ég steig í hnakkinn. En í því er ég er að rétta mig við í hnakkinum, kemur hrafn fljúgandi utan úr þokunni og sest fyrir framan hestinn og hoppar nokkur spor. Síðan hoppar hann yfir fyrsta skorninginn og hestarnir fara á eftir honum eins og þeir hefðu aldrei ragir verið. Og svo fór ég eftir öllum görðunum og hrafninn flaug á undan, og hann var ekki meira en svona fimm fet uppi í loftinu. Þannig gekk ferðin eftir öllum garðinum og þegar að ég kom upp fyrir ísinn, þá settist hrafninn þar og sat þar dálitla stund, og flaug svo út í þokuna og til fjalla. Og hann var alveg þegjandi. En mér gekk síðan vel heim að bænum.

Svo var það fyrir nokkuð mörgum árum að það dóu þrír bændur með nokkurra ára millibili á Síðunni. Og ég tók eftir því að seinasta nýársdaginn sem að þeir lifðu, að þrír hrafnar flugu hátt í lofti steinþegjandi. Þeir flugu allan daginn og alltaf yfir þann bæinn sem að bóndinn dó á en framhjá hinum. Þetta gerðu þeir í öll þau skipti sem að bændurnir dóu, á þessum þremur bæjum. En það var líka trú manna að ef að hrafn settist á bust og léti illa þá væri einhver feigur þar inni.

Sagnir Þorbjarnar Bjarnasonar (SÁM 90/2052). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í nóvember 1969 sjá https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1011105 og https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1011107

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.