Ker með furðudýrum

Liðlega kílómeter sunnan bæjar á Galtalæk á Landi fellur samnefndur lækur undir stóran steinboga sem hylur lækjarfarveginn og foss í honum, svokallaðan Gerðisfoss, á 25 metra kafla. Þar sem lækurinn kemur upp undan steinboganum heitir Ker og er þeim stað lýst svo í Ferðabók Eggerts og Bjarna frá 1752: “Það er 2-3 faðmar að þvermáli, en vatnið er á sífelldri hreyfingu og koma fram í því ýmsar myndir. Fólkið þar í grennd fullyrðir, að í vatninu sjáist ýmist furðudýr. Oftast eru þau þó aðeins tvö, og maður sá er sýndi okkur kerið, fullyrti að hann hefði í ungdæmi sínu séð þau oftsinnis, og hefðu þau líkst stórri skötu og flyðru.” Að sögn Sveins Sigurjónssonar bónda á Galtalæk skemmdist Kerið mikið eftir jarðskjálftakippi á sjöunda áratug 20 aldar. Þá féll grjótfylla yfir staðinn þar sem botnlausi pytturinn er og nú sést ekki í hann. Áður en þetta gerðist reyndi Sveinn eitt sinn að mæla dýptina á þessum stað með 6 metra löngu röri en náði ekki til botns. Talið var að pytturinn næði alla leið til sjávar og því ættu sjávarfiskar greiða leið í Kerið. Sveinn segist oft hafa séð yfir 20 punda urriða gægjast undan steinboganum. Þessara stórfiska hefur þó ekki orðið vart nú síðan í jarðskjálftunum sumarið 2000 (FEB II, 166, SvSi).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.