Landbrot og Nýkomi

Strönd í Meðallandi

Hér segir Þórarinn Helgason (1900-1978) bóndi og fræðimaður í Þykkvabæ í Landbroti frá fornminjum í Landbroti og tilgátum sínum um landnám í byggðarlaginu. 

Það er ráðgáta hvað þessi sveit, Landbrotið hefur kallast til forna. Það segir um landnám Ketils fíflska á Kirkjubæjarklaustri í Landnámu eitthvað á þá leið að hann hafi fest byggð sína að Kirkjubæ fyrir ofan Nýkoma. Og hvað er þessi Nýkomi? Er það kannski Landbrotið sem þá hefur borið þess merki að vera ný af nálinni.

En í Landbrotinu eru margar afar fornar minjar og forn mannvirki sem væri fróðlegt að væru athuguð. Þarna eru meðal annars gamlar garðhleðslur og garðlög sem hafa verið óhemju mannvirki, svo stórkostleg sum að ég vill nærri því fullyrða að frjálsir menn hefðu ekki lagt á sig að gera slík mannvirki. Það hlýtur að hafa verið þrælavinna. Mikið af þessu er að hverfa vegna þess að það er búið að taka landið til ræktunar og ýta þessu og jafna.

Í Landbroti er garður sem er svo langur að það tekur um klukkutíma að ganga með honum. Hann er svo mikið mannvirki að þegar vegurinn var lagður hér suður í Landbrot fyrir nokkrum árum þá þótti það mjög mikill sparnaður að nota garðinn í veginn. Hann gat verið eins og upphleyptur vegur á köflum. Þessi garði hefur verið kallaður Bjarnargarður eða Bjarnagarður, ég veit ekki hvort er réttara. En sagnir eru um það að maður einn sem unnið hefði sér eitthvað til saka hefði leyst sig undan refsingu eða dauða með því að hlaða þennan garð.

Byggð var í þessari svokölluðu Skjaldbreið, sem var hérna austur af Landbrotinu og fór síðar í eyði vegna sands. Skjaldbreiðarmenn ráku búfé sitt hér út í Landbrot og beittu því þar en voru ekki vel séðir af þeim sem hér voru fyrir og það endaði með því að þeir urðu að byggja traðir til þess að reka féð eftir til þess að koma því á beit eða fjall. Traðirnar sjást enn og eru óhemju mannvirki.

Sögn Þórarins Helgasonar (SÁM 84/64). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 sjá https://www.ismus.is/i/audio/uid-0214f5e4-4f2e-4e9d-8f1e-605124128c32

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Tengdar sögur

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.