Oddnýjartjörn

Oddnýjartjörn og Búrfell

Fremst er Oddnýjartjörnin, næst Búrfell og svo Mýrdalsjökull. Ljósm. Þórir N Kjartansson.

Húsfreyja mælti um og lagði á að aldrei skyldi veiðast í tjörninni 

Á hálsinum milli Steigarlands og Ketilsstaðalands er tjörn í litlu dalverpi. Hún heitir Oddnýjartjörn, og er á öðrum stað sögn um nykur í henni. Veiði hafði verið í tjörninni og notuð frá Ketilsstöðum og eitthvað frá Brekkum, sem land áttu að tjörninni austan frá. Nú veiddu menn eitthvað dálítið í tjörninni og lögðu í hana silunganet. Merkishúsfreyja var þá á Ketilsstöðum, er Oddný hét. Hún átti mest veiðina og veiddi mest. Einhvern tíma þegar hún vitjar um net sín, eru þau öll í einum hnút og ekkert í þeim nema áll, andstyggilega ljótur. Kenndi hún bónda um þetta, sem bjó á Rauðhálsi og var fjölkunnugur. Oddný kunni líka nokkuð fyrir sér, og í reiði sinni mælti hún um og lagði á að aldrei framar veiddist í tjörninni annað en áll og óæti. Þá hvarf öll önnur veiði þaðan, og tjörnin fékk nafn sitt, Oddnýjartjörn.

Um 1900 flutti Gísli Þórarinsson bóndi á Ketilsstöðum silungsseiði í Oddnýjartjörn, og hefur lítið borið á því að þau döfnuðu þar.

(Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þórður Tómasson fr. Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981. Bls. 114)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.