Ólöf hittir mann sem hún spyr hvort sé andskotinn sjálfur úr helvíti
Gamalíel hét bóndi á Stokkseyri. Hans synir voru Jónar tveir, hinn eldri og yngri. Sá yngri var faðir Ara kaupmanns í Hafnarfirði. Þeir bræður giftust undireins og skyldi brúðkaup þeirra vera á Kaldaðarnesi. Þar voru brúðarefnin bæði. Það var um haust.
Hestar voru allir austur við Baugstaðaá og ætlaði Jón yngri að sækja þá og yngisstúlka með honum sem hét Ólöf Guðmundsdóttir. Hún átti þá heima á Stokkseyri og átti að fá að fara í veizluna. Hún hlakkaði mikið til þess og svaf lítið um nóttina fyrir ferðahug. Og þegar hún hélt að mundi líða undir dag fór hún á fætur og vakti ekki Jón, en fór ein á stað að sækja hestana. Veður var svo að útsynningur var og gekk oft éljum.
Fyrsta élið kom á Ólöfu hjá Grjótlæk og fór hún þar inn í fjós eða lambhús og beið af sér élið. Síðan fór hún austur á Skipasand og þá kom annað élið. Þá settist Ólöf undir stein á sandinum nálægt Skipaá. Þar þótti mörgum vera reimt. Þegar Ólöf var setzt undir steininn syfjaði hana og sofnaði hún fast. Hana dreymdi að maður kom að henni og tók í fætur hennar og dró hana undan steininum. Hún vaknaði við þetta og var þá dregin frá steininum á þá leið sem að ánni snéri, og henni sýndist standa yfir sér maður í sortulituðum fötum. Ólöf hleypir þá í sig móði og spyr þenna mann:
„Hvur ertu? Ertu maður eða ertu andskotinn sjálfur úr helvíti?“
Þá brá þeim dökkklædda svo við að hann varð að eldhnetti og sprakk í allar áttir og eitt stykkið sýndist henni fara framan í sig. Hún stóð samt upp og hélt áfram og sótti hestana og fór út eftir með þá. Þegar hún kom út fyrir Rauðárhóla kom Jón móti henni kallandi og bölvandi. Þau fóru með hestana heim á Stokkseyrarhlað. Þá var enn ekki kominn dagur og var verið með ljós í bæjardyrunum. Þegar Ólöf sá ljósið brá henni svo við að hún hné af hestinum í öngvit og var borin inn í rúm. Hún var kolblá á andlitinu og svo vítt sem sá á hana bera, en ekki gætti þess þar sem fötin hlífðu. Var svo lokið veizluferð hennar. — Þegar óhreint kemur nærri manni þá líður maður í öngvit ef hann sér ljós áður en hann hefir sofnað.
Ólöf þessi þótti ávallt mjög harðlynd. Hún giftist þeim manni er Gunnlaugur hét. Hann hafði átt tvær konur áður hvora eftir aðra og börn með þeim, en bæði þær og börnin urðu heilsulaus og skammlíf og var því kennt um að karl beitti svo mikilli hörku við þau að óþolandi væri. En þegar hann var giftur Ólöfu fór hann að sefast, því þar fékk hann fullkomið jafnræði sitt. Þau bjuggu í Götu í Stokkseyrarhverfi og er Gunnlaugur dáinn fyrir nokkrum árum, en Ólöf lifir enn.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, 333-334).