Reimleikarnir á Hofi á Rangárvöllum

Vofa Sólborgar Jónssonar, sem var ásökuð um að hafa fyrirkomið barni sínu og var talinn hafa framið sjálfsmorð í kjölfarið þar sem hún var í varðhaldi í Þistilfirði 1893, gerði vart við sig víða. Hún var talinn fylgja Einari Benediktssyni, sem var settur sýslumaður Þingeyinga á þessum tíma og átti að rannsaka mál hennar, og settist að með honum að Hofi á Rangárvöllum þegar hann var settur sýslumaður þar. Hér segir Jón Sverrisson (1871-1968) frá Nýjabæ í Meðallandi, síðar bóndi í Álftaveri frá tildrögum þess að Sólborg settist að á Hofi. 

Einar Benediktsson settist að í sýslu sinni, á Hofi á Rangárvöllum, skömmu eftir Sólborgarmálið. Hann keypti hús Þorvaldar á Eyri. Timburhús voru þá varla til í sveitinni en Þorvaldur gamli á Eyri átti nokkuð stórt timburhús á sinni jörð, og Einar kom því þannig einhvernvegin fyrir, að hann varð að láta húsið. Og Einar reif það og lét flytja það og koma upp á Hofi. Hann varð þess fljótlega var að það var ekki allt sem skyldi þarna hjá honum í húsinu. Helst voru það konur sem komu og gistu sem urðu varar við það. Svo hann fór til einhvers vinar síns, sem hann hafði trú á, og spurði hvernig hann gæti verið laus við það. Og honum er sagt að hann skyldi fara út að Odda, að heiman, eins og hann væri að fara til kirkju og vera þar við messugerð og jafnvel ganga til altaris. Síðan átti hann að passa að koma ekki heim að Hofi aftur, heldur fara þangað til Reykjavíkur og koma ekki að Hofi meir. Þessu hlýddi hann og hann varð laus við stúlkuna.

En þá keypti Guðmundur Þorbjarnarson húsið á Hofi og flutti þangað. Það brann síðan þetta hús, sem hann keypti af Einari, og var álitið að hann hefði jafnvel kveikt í því sjálfur, en það getur nú verið lygi. En hún flúði ekki langt, stúlkan, hann byggði annað hús og hún var þar eftir sem áður. Hann átti tvær dætur, með öðrum börnum, og sagan segir að hann hafi tekið kennslukonu handa þeim. Hann lét þær allar búa saman í einhverju stóru herbergi upp á lofti í húsinu.

En eftir einhvern lítinn tíma kemur kennslukonan til hans og segist ekki geta verið þar, af því að þar sé svo mikll óróleiki í herberginu, reimt sem kallað var. Og þó sváfu stúlkurnar í sama herberginu og hún. Hann eitthvað breytti því til, en ekki vildi þetta linna og þá fór hann til Einars Kvaran og biður hann um ráð til að losna við þennan fylgjunaut.

Einar Kvaran sagði honum að það væri víst ekki mögulegt nema það væri hægt að láta hana finna barnið sitt. Svo dróst það eitthvað, en það varð samt úr, að hún hvarf og það hefur ekki orðið vart við hana síðan. Og það er talið, að það hafi verið fyrir það að þau hafi komist saman, barnið og hún.

Eftir sögn Jóns Sverrissonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í desember 1966 (SÁM 86/849) sjá https://ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1003316

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.