Sunnan Reynisfjalls standa þrír drangar í sjó. Einn heitir Langhamar og upp úr honum standa þrír aðrir drangar, áður líktust þessi drangur þrímöstruðu skipi. Annar heitir Háidrangur eða Skessudrangur. Hann er hár með stóru gati að neðan líkt og hann sé að stíga öðrum fæti á sker. Toppurinn líkist höfði og hálsi. Sá þriðji heitir Landdrangur, enda stendur hann nálægt landi. Um þessa dranga er sú saga að skip lagði inn í Þórshöfn sem nú nefnist Þórshafnarfjara. Sagt er að konungsson hafi átt skipið. Tröllskessa biður um far en er neitað. Þegar skipið leggur af stað sér áhöfnin hvar skessan kemur og biður þá að bíða eftir sér en þeir neita. Leggur hún þá á þá að skipið verði að steini en konungsson svaraði í sömu mynt. Önnur sögn segir að jötunn hafi fylgt skessunni og sé það Landdrangurinn.

Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. 6 bindi. Rits. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961), IV, 41-42. MS: Lbs 534,293

Reynisdrangar og tröllið – Teikning eftir J. Laczkowski
Reynisdrangar og Víkurfjara – Ljósm B. Rutkowska
Reynisdrangar. Teikning eftir J. Laczkowski
Reynisdrangar og Víkurfjara