Runólfur í Holti og Guðmundur frá Svartanúpi

Strönd í Meðallandi

Hér segir Þorbjörn Bjarnason (1895-1971) frá Heiði á Síðu frá tveimur nágrönnum sínum, Runólfi Jónssyni (1827-1910) hreppstjóra í Holti og  Guðmundi Guðmundssyni (1855-1930 ) frá Svartanúpi sem var vinnumaður í Holti í byrjun 20. aldar.

Runólfur Jónsson hreppstjóri í Holti á Síðu var ættaður úr Skaftártungunni. Hann bjó í mörg ár í Holti og var góður bóndi því það er góð jörð, Holtið, fjárjörð. Hann hafði alltaf um 400 fjár og alltaf sextíu sauði, það mátti ekki fara niður fyrir það. En það þurfti lítið að gefa þeim á vetrum því að þetta er góð hagagöngujörð. Bæ sinn byggði hann þannig að hann byggði timburhús sem ekki var nú títt í þá daga, en gallinn við það var það að það var ekki upphitað svo að það var mjög kalt í því.

Hjá Birni Runólfssyni hreppstjóra í Holti var vinnumaður sem Guðmundur hét frá Svartanúpi í Skaftártungu. Hann var mjög greindur maður. Hann keypti hér um bil allar bækur sem komu út og varði öllum sínum peningum í bókakaup. Guðmundur leiðrétti Íslandskortið hjá Þorvaldi Thoroddsen, hann fór í eftirgöngu austur í Fögrufjöll og þá fann hann það út að Skaftá rann úr Langasjó sem ekki var vitað fyrr, því menn héldu allir að hún kæmi undan jöklinum. En það var ekki rétt.

Sagnir Þorbjörns Bjarnasonar (SÁM 90/2309). Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1970 sjá https://www.ismus.is/i/audio/uid-db06e447-521a-4e3a-85ae-1629547a98c6 og https://www.ismus.is/i/audio/uid-37db1098-1c2f-469a-94a5-64207f25de56

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Tengdar sögur

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.

Strönd í Meðallandi
Allar sögurnar

Skatan í Þverá

Jón magnar upp skötu til að stýra landbroti á bökkum Þverár.