Guðjón póstur

Brúin yfir Eldvatnið við Syðri-Fljóta

Brúin yfir Eldvatnið við Syðri-Fljóta. (Eig. Sigursv. G)

Saga af Guðjóni pósti sem drukknaði 1868 og fannst hvorki lík hests né manns. Sæmundur blindi á Strönd í Meðallandi varð Guðjóns var eftir að hann týndist.

Vestan við Eldvatnsbrúna kemur hrauntangi fram í ána og þar vestan við var hólmi. Út í þennan hólma var ýtt garði- sér enn móta fyrir því- og þarna var Bjarnavaðið, farið var yfir hólmann. Þetta hefur nú auðvitað allt breyst útaf því að sandur fyllti ána á tímabili. Þarna fórst pósturinn, GuðJón póstur, það var 1868 að mig minnir, bæði maður og hestur hurfu þarna í hyldýpi. Þá var áin öðruvísi, rann neðar á hrauninu. Foss var þar sem brúin er núna og hét Kumlafoss og hann var þar alveg fram yfir aldamót þegar áin fór að fyllast af sandi fyrir austan. Óhemju mikið var leitað að póstinum en hvorki fannst maður né hestur. Í póstbókinni er sagt að hesturinn hafi fundist, en það er ekki rétt, því Stefán, sem var fyrst með föður mínum hérna (á Hnausum) eftir að faðir minn fór að búa hér, var þá ungur maður, og var einn af þeim sem tók þátt í leitinni og vissi það að hesturinn fannst aldrei heldur. Jafnvel var talið að vatn hafi sogast þarna niður, þetta var svo nærri brúninni á fossinum, og hefðu bæði maður og hestur festst þarna í einhverri hraunsprungu, þannig að þeir fundust aldrei. Pósturinn þótti nú oft vera eitthvað á ferðinni eins og var nú oft með þessa sem fórust voveiflega- það var víðar en í Skagafirðinum sem þótti verða vart við þá sem fórust í svona vötnum, og þótti bara ekkert gott að fara þarna í dimmu fyrst á eftir. Þegar þetta gerðist átti Sæmundur nokkur Jónsson heima á Strönd. Hann var lengi blindur og var nefndur Sæmundur Blindi, varð blindur á nokkuð góðum aldri, en þegar þetta gerðist var hann á besta aldri og þekkti GuðJón póst mjög vel, hefur örugglega fylgt honum yfir Kúðafljótið. Þá lá póstleiðin þar yfir hjá Strönd því að bæði voru póststöðvar í Meðallandi og Álftaveri.

GuðJón fórst um haust. Svo var það veturinn eftir að Sæmundur var að fara til útvers. Það var þá siður að menn kvöddu kunningjana áður en þeir fóru, menn áttu það nú ekki víst að koma til baka úr sjóróðrunum. Sæmundur fór austur á Koteyjarbæi að kveðja. Og svo dregst nú að hann komi heim, hann lendir í að spila þarna á einum bænum og það er langt liðið á vöku þegar hann fer af stað út að Strönd. Þetta er nú ekki langur vegur og hann er tiltölulega fljótur á milli, það var gott færi, allt á hjarni. Þá var hesthús á Strönd þar sem beygjan er núna á veginum austur að Kotey. Þegar hann er að koma að hesthúsinu þá kemur maður frá Efri-Ey og stefnir nokkuð beina leið þangað sem Sæmundur er. Svo hann tekur fyrir að hann bíður undir hesthúsgaflhlaðinu að sjá hver þetta væri. Komumaður er nú ótrúlega fljótur í ferðum og með hattinn aftur á hnakka og blakti frá honum kápan. Leit komumaður við Sæmundi um leið og hann renndi framhjá- það var líkast og hann væri á skíðum- og þá sér Sæmundur að þetta er GuðJón sálugi póstur. Sæmundur stóð eins og negldur í sömu sporum og horfði á eftir honum og var hann kominn út undir túngarðana á Söndum þegar hann hvarf Sæmundi alveg því það var birta af tungli þó að það væri skýjað.

Svo fer Sæmundur heim og þegar hann kemur inn í ganginn þá leggur ljósglætu í gegnum rifu á baðstofuhurðinni. Stigi var þangað upp og kýr undir palli og hurðin gisin. En þegar Sæmundur kemur í glætuna þar sem ljósið lagði út um rifuna þá finnst honum ætla að líða yfir sig svo hann tekur fyrir að fara fram í dimmuna aftur til að jafna sig. Slapp hann við yfirlið en var náfölur þegar hann kom inn. Sæmundi hefur sennilega ekki þótt rétt nógu notalegt að horfast í augu við þann framliðna þarna undir hesthúsinu. En á Söndum urðu heilmikil læti þessa nótt, eins og dregið væri hart húðaskinn eftir þekjunni. Þar sást þó ekkert.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri.)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.