Skrímsli á Mýrdalssandi

Sögur af kvikindi sem sést hefur á Mýrdalssandi. Kvikindið líkist otur eða tófu og ræðst á menn ekki langt frá því þar sem steinninn Latur er á sandinum

“Otur eða einhver andskotans ótóg hefur lengi haldið sig á Mýrdalssandi.” Það hafa margir ferðamenn fengið að reyna og fæstir sagt mikið frá. Jón Símonarson og Sigrún Sigmundsdóttir, kona hans, voru bæði vinnuhjú í Norður-Hvammi í Mýrdal, og kynntist ég þeim þar. Heldur var Jón tregur að segja sögu sína en sagði þó vel frá og greinilega. Byrjaði hann frásögnina með þessum formála: “Otur eða einhver andskotans ótóg hefur lengstum haldið sig á Mýrdalssandi.” Hann átti þá heima á Herjólfsstöðum þegar þetta varð, hafði áður búið á Hryggjum í sömu sveit. Jón var bráðduglegur maður, þrekvaxinn og orðstór en ekki margmáll.

Veturinn 1888 fór Jón Símonarson til sjóróðra út í Reynishverfi. Tók hann ferðadaginn snemma, en smávegis tafir ollu því að klukkan var nær tíu að morgni, er hann komst af stað. Hann reið brúnum hesti, sterkum og frekar treggengum. Færðin var bærileg á sandinum en hryssings éljagangur í veðri. Allt gekk sem vænta mátti vestur yfir kælara og allt vestur að hól þeim, sem Latur heitir. Þar sér Jón einhverja verukind á skjótri hreyfingu. Það hlyti að vera hundur eða tófa hélt hann. En skrýtin skepna var þetta, nokkuð svipuð stórum ketti að hæð en talsvert lengri.

Ókindin færðist nær, ýmist í hörðum sprettum og stefndi á veginn fram undan Jóni. Brátt snýr hún sér móti hestinum og vill verja götuna. Hesturinn kippist til baka og vill halda heim á leið. Jðón bregður sér þá af baki og vill slá þetta kvikindi burt úr veginum með svipuól sinni. Í snarkasti hljóp það upp um herðar Jóni og læsti bitrum klóm, svo þær tóku í hold inn úr trefli hans og fötum. Jón vildi lesa það af sér og tók til þess allvel, en svo hált og sleipt var það að hönd mátti varla taka það taki. Þó losnaði Jón við það í svip, en á ný réðist það að honum aftur og beitti hann hvössum klóm og bitrum kjafti. Aldrei hafði Jón tíma til að ná vasahnífi sínum upp, svo áköf var aðsókn dýrsins. Og ekki mátti hann festa svo hendi á því að auðið væri að hálsbrjóta það. Þessi viðureign þeirra gekk fram á miðdag, en þá lagði skepna þessi frá og hélt til sjávar.

Hestur Jóns var þá horfinn, og sá Jón sitt ráð eitt að hverfa heim aftur. Ný vaðmálsúlpa hans var mjög sundurslitin, og blóðugur var hann í andliti og á handleggjum. Hesturinn hitti hann heima við túngarð á Herjólfsstöðum. Allir heima á Herjólfsstöðum undruðust þetta ferðalag Jóns og hryllti við því hvernig hann leit út. En glöggt sagði hann ekki frá viðureign sinni við þetta dýr, sem hann hélt að verið hefði otur. Hann hvíldi sig þegar um kvöldið og lá fyrir til næsta dags.

Næsta morgun leggur hann enn upp og tekur gamla Brún. Ekki vildi hann fylgdarmann. “Fjandi þessi hefur eflaust fengið nóg af viðureign okkar í gær,” sagði hann. Vissara þótti honum þó að taka með sér fjallastöng sína, sem bæði var valin að efni og hvassbrodduð.

En hvað skeður? Á sömu slóð og í gær verður sama kvikindi á vegi hans. Vill hann þá snúa úr braut og ríða fram hjá því, en það tókst ekki. Sækir þessi ókind nú hart að honum og sælist til að hlaupa upp á herðar hans en hvarvetna beitti það hann klóm og tönnum. Jón kom illa við stönginni, hún var of löng, og þó gat hann svo beint henni að dýrinu að loksins hljóp það frá, og var þá fjallastöngin þríbrotin.

Þegar dýrið flúði, stóð Jón eftir með stangarbrotin, sjálfur illa útleikinn, löðrandi sveittur og lítt til ferða fær. Sló þá að honum kuldahrolli, svo hann skalf að beini. Eitt var að gera, að snúa aftur heim að Herjólfsstöðum.

Þriðja sinn lagði hann á Sandinn og annar maður til. Urðu þeir þá einskis varir. Verksummerki sáu þeir eftir viðureign Jóns við dýrið. Spor dýrsins virtust þeim minni en venjuleg hundsspor.

Nokkru síðar urðu þeir Jón Sigurðsson í Skálmarbæ og Þorsteinn á Herjólfsstöðum fyrir ásókn líkri þessari á Mýrdalssandi. Henti það þá sinn í hvoru lagi. Réði dýrið á þá um nótt í illviðri. Þeir lýstu því ámóta og Jón Símonarson.

(Sögn Jóns Símonarsonar sjálfs 1893 og síðar dóttur hans, Guðrúnar. Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal/Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli; Þorður Tómasson frá Skógum bjó til prentunar. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1981:90-91)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.