Stokkseyrar-Dísa

Kona þessi bjó á Stokkseyri, og hét hún fullu nafni Þórdís Markúsdóttir. Sagnir Bakkamanna um Dísu sýna það að hún á lýsing þá skilið, sem hennir er áður gefin [sagt var að hún væri galdrasnapur, hrekkvís og drykkjurútur], þó hafa henni farizt sumir hlutir ekki ómannlega, og skal hér nú geta nokkurra dæma um Dísu.

     Dísa vekur upp tvíbura

Maður er nefndur Snorri; hann bjó í Stóruháeyri, og fór hann einu sinni ferð austur í Parta. Segir ekki af ferðum hans fyrri en hann var kominn aptur út á móts við Stokkseyri. Það var um miðja nótt í tunglsljósi. Þá sér hann þar í kirkjugarðinum einn mann eða jafnvel tvo. Hann skiptir sér ekki af þessu, en gengur niður að sjó og svo út með ströndinni. Og þegar hann er kominn góðan spöl út fyrir Stokkseyri, nærri út að Hraunsá, snýr hann aftur frá sjónum upp á flatirnar. Þá sér hann tvo eldhnetti veltast með miklum hraða út eftir bökkunum, þar til hann missti sjónar af þeim. En skömmu eftir þetta barst sú saga að Stokkseyrar-Dísa hefði vakið upp tvíbura, [Sumir segja, að það hafi verið börn hennar tvö, er hún hafi drepið úr hor] og sent þá vestur á Vestfirði.

     Dísa leggur inn skreið

Dísa hafði tekið dreng til fósturs og alið hann upp. Hún hafði kennt honum margt í fornum fræðum, enda var hann natinn við það nám og hnýsinn mjög um slíka hluti. Fór hann svo frá henni og reisti bú þar á Eyrarbakka er hann var orðinn fulltíða maður. Einhverju sinni fer Dísa í kaupstað út á Eyrarbakka og flytur skreið, að því er mönnum sýnist, á fjórum hestum eða fimm, aðrir segja á fjórtán. En er hún kemur út undir kaupstaðinn, mætir henni fóstursonur hennar og segir:

“Hart reiðir þú á, fóstra. ”

Hún svarar:

“Haltu kjafti; of mikið hef ég kennt þér , strákur. ”

Síðan skilja þau, og heldur hvort sinn veg. Dísa leggur inn skreiðina hjá Bakkakaupmanninum, og er ekkert fundið að vöru hennar. En þegar fara á að flytja Stokkseyrarfiskinn út í skipið seinna um sumarið er hann allur orðinn að grjóti. Þóktust menn þá vita að Dísa hefði leikið þetta með fjölkynngi sinni, en kaupmaður treystist ekki að fá rétting mála þeirra af Dísu.

     Fatahvarfið

Það var eitt sumar undir það að Eyrarbakkaskip átti að fara þaðan til útlanda að skipverjar komu klæðum sínum í þvott hjá konu einni á Bakkanum. Hún þvoði fötin einn góðan veðurdag og breiddi þau svo út til þerris. Um kvöldið er hún ætlaði að hriða fötin voru þau öll horfin. Þetta var kennt Stokkseyrar-Dísu að hún hefði með kynngi látið fötin hverfa heim til sín; en enginn þorfði eftir að ganga.

     Meinfýsi Dísu

Einu sinni voru tveir bændur, annar á Skúmsstöðum, en annar á Stóru- Háeyri; þeir áttu sinn áttæringinnn hvor sem þeir létu ganga á Eyrarbakka. Dísa lét um sama leyti teinæring ganga á Stokkseyri. En þegar hún frétti að skipum þeirra gekk töluvert betur að fiska en hennar brá hún sér um miðja nótt út á Eyrarbakka, tók öll færin úr báðum skipunum, bar þau austur að Stokkseyri og fleygði þeim upp á bæjardyraloft og lét þau liggja þar þangað til þau fúnuðu og urðu ónýt. En um morguninn kemur hún út og gengur fram á sjávarbakkann. Sér hún þá bæði skipin fara út sundið og mælti hún þá:

“Hjálpað hefur fjandinn þeim til að komast út á sjóinn fyrir þessu. ”

     Dísa fær léðan hest

Sýslumannsekkja nokkur bjó einhverju sinni á Stórahrauni. Stokkseyrar-Dísa bað hana að ljá sér hest og söðul út að Hlíðarenda til Brynjólfs nokkurs er þar bjó. Hann var mjög göldróttur og áttu þau oft í brösum saman. Ekkjan þorði ekki annað en að ljá henni hestinn. Nú leið og beið; hún skilaði ekki hestinum; en hálfum mánuði síðar fannst hesturinn dauður austur við Hraunsá, en söðullinn allur brotinn austur við Bjarnavörðu sem er þar spölkorn fyrir austan á sjávarbakkanum. Ekkjan þorði ekki neitt að tala um þetta því henni stóð, eins og öllum, mikill ótti af Dísu. En hálfu ári síðar kom Dísa að hrauni og spurði konuna hvort hún vissi nokkuð um hann Jarp. Hún sagði svo vera. Dísa fékk henni tólf spesíur og sagði að það skyldi vera borgunin fyrir hann.

(Aðrar sögur um Stokkseyrar-Dísu á vefnum Sagnir á Suðurlandi eru: Dísa launar greiða, Dísa missir marks og Dísu veitt ráðning)

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 1, 566-567).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.