Strandarhellir í Selvogi

Sagan á bak við Víghól í Selvogi og saga af Strandarhelli.

Á Strönd í Selvogi sem nú er eyðisandur var áður stórbýli. Þar bjó Erlendur lögmaður Þorvarðsson.¹ Hann var svo ríkur að hann átti sex hundruð ásauðar, tvö af þeim gengu með sjó á vetrum og höfðu þar borg og geymdi einn maður. Önnur tvö hundruð gengu upp á völlum við Strandarborg — það er nú lítil rúst — og geymdi annar maður. Þriðju tvö hundruð gengu á Strandarhæðum við Strandarhellir upp undir heiði og geymdi þriðji maður. Sauðirnir gengu upp í heiði.

Smalinn við Strandarhellir hafði eitt kvöld sem oftar byrgt allt fé það sem þar var inni í hellinum, en um morguninn vantaði eina á og varð Erlendur þá mjög reiður og sagði að ána mundi hafa vantað um kvöldið. Smalinn þrætti þess. Þá lét Erlendur afhýða smalann, en aðrir segja hann hafi drepið hann og er það ekki ólíklegt eftir skaplyndi hans. Litlu síðar fréttist að ærin hefði einn morgun verið inni í byrgðum fjárhelli á Hlíðarenda í Ölvesi. Því þóttust menn vita að hellar þeir næði saman og var því hlaðið í þá gaflhlað.

Annar þjón eða jafnvel smalamaður Erlendar er sagt hafi einu sinni rekið spjót sitt ofan í jörðu. Kom þá sandur upp á oddinum. Þá sagði hann að sú jörð mundi verða eyðisandur. Erlendur svaraði: „Það skaltu ljúga.“ Hann stóð fast á þessu, en Erlendur reiddist og sagði hann skyldi fá laun fyrir hrakspá sína og vildi vega hann. Hann hljóp undan norður um tún, en Erlendur náði honum og drap hann við hávan hól fyrir norðan tún. Sá hóll heitir síðan Víghóll enn í dag.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 35-36).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.