Sú nýjasta af Loðna manninum á Skarði

Vilhjálmur kom í kjölfar þess loðna í veiðihúsið

Það síðasta sem ég hef eiginlega frétt af Loðna manninum á Skarði er þegar hann kom á undan mér í veiðihúsið hérna við Eldvatnið. Þetta var annað veiðihús en nú er, og stóð fyrir neðan hraunið þar sem veiðihúsið stendur núna. Þar var þá Hannesarfólkið frá Sandvík, Hannes Finnbogason læknir og Hannes Þ. Sigurðsson, sem eru nokkuð þekktir menn, og fjölskyldur þeirra. Þá langaði mikið til að ég segði draugasögur hérna úr sveitinni.

Ég kom þarna til þeirra í kvöldmatinn og á eftir fengum við okkur aðeins í glas minnir mig vera. Og ég sagði söguna af loðna manninum á Skarði. Manni þykir nú alltaf gott að vera þar sem maður getur fengið einhverja athygli, en þarna var það bara heldur mikið. Það var glápt á mig eins og eitthvert furðuverk. Það kom þá í ljós að nóttina áður, undir morgun, þá dreymir Margréti, konu Hannesar Þ. Sigurðssonar, að brotist er þarna inn í skálann. Og húsbrjótur kemur inn og svo er hann farinn að brjótast inn í herbergið sem þau sváfu í, er búinn að brjóta hurðina og hún er farin að sjá hann, og hann er bara ógnvekjandi. Henni fannst að það mundi ekkert geta bjargað, nema bara helst Guð. En þá vaknaði hún frá þessu og ekkert varð meir úr. En svo fer ég að segja sögu af svona fyrirbæri. Þarna hefur Sá Loðni komið á undan mér. Mér hefur stundum dottið í hug hvort ég hafi ekki verið að rugla eitthvað í beinum hans þegar ég var að grafa niður mannabein þarna í kirkjugarðinum.

(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum í Meðallandi. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði, feb. 2000. Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri)

 

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.