Sveinn Pálsson læknar útilegumann

Hér segir Gísli Tómasson (1897-1990) frá Mýrdælingi sem talinn var hafa lagt lag sitt við útilegumenn að Fjallabaki á 19. öld.

Einar, maður frá Holti í Mýrdal, lagðist út og var í slagtogi með útilegumönnum. Hann kom svo til Suður-Víkur, til Sveins Pálssonar læknis, særður eftir axarhögg við herðarblað. Sveinn Pálsson tók hann til lækninga og læknaði hann. Þá átti hann von á því að það fyndust einhver skilaboð við Einhyrning, í einhverjum skúta, um það hvort hann mætti koma til útilegumannanna aftur. Miðinn fannst, en honum var aldrei sagt frá því af því að fólk kærði sig ekki um að hann færi að leggjast út aftur. Hann kom á bleikskjóttum hesti og hann gaf Sveini Pálssyni hestinn. Og Sveinn átti hestinn að sögn lengi, þetta var mjög góður hestur og duglegur. En Einar lagðist aldrei út aftur, enda fékk hann aldrei vitneskju um það að hann mætti koma aftur. En hverjir hinir mennirnir voru er ekki vitað.

Einu sinni voru menn við veiði í kofa við Kílinga og þá kom einhver maður þar að kofadyrunum og talaði eitthvað við þá og var það talinn útilegumaður.

Frásögn Gísla Tómassonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í maí 1984 (SÁM 93/3432): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1040535

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.