Fólk verður úti í Skaftártungu

Veður gátu orðið válynd í Skaftártungu, sérstaklega útnorðursbyljirnir. Margir urðu úti við slíkar aðstæður í fyrri tíð en hér segir Vigfús Gestsson frá Ljótarstöðum frá slíkum slysförum, meðal annars frá tveimur systrum sem úti urðu í Hvammslandi. 

Það sem ég heyrði minnst á, þá urðu úti í Hvammslandi í Skaftártungu, þrír, tvær konur og einn unglingsmaður. Þetta voru tvær systur, náttúrulega á sitt á hvorum stöðunum og í sitt hvoru sinnið. Þetta voru dætur Jóns heitins á Búlandi, hann var faðir Runólfs heitins hreppsstjóra í Holti og Sæmundar heitins Jónssonar á Borgarfelli. Það var nú venjan þarna í Skaftártungunni að menn sem komust að heiman fóru til vers, og þá var það kvenfólkið sem að þurfti að hugsa um fénaðinn. Svo að hún var í selinu hjá systur sinni, Guðrún Jónsdóttir, að nafni, hún var vinnukona hjá Þorleifi heitnum í Búlandsseli og systur sinni, Þorbjörgu. Nú er það einn morgun að það vantaði kindur og var komin mikil lausamjöll, en útlitið var svona sæmilegt þegar hún fór af stað um morguninn að leita fjársins, en það var mikil lausamjöll á jörðinni. Svo svona út úr hádeginu þá snögghvessir hann að norðan, og eiginlega útnorðursbylirnir sem við köllum þarna austur í Skaftártungunni, þeir voru taldir alltaf hættulegt veðurfar. Þetta kom svo snöggt og þá stóð eiginlega á skarðinu milli jöklanna, Mýrdalsjökuls og Torfa-jökuls, og þetta voru alltaf taldar hættulegustu hríðirnar þarna. Svo er það þennan dag, að þegar Guðrún heitin er komin norður í haga sem kallað er, þá snögg ríkur hann og þá náttúrulega hefur hún líklega ekkert séð frá sér og villst og verið að villast þar um hagana þangað til hún kom fram í Hvammshaga. Og þar hefur hún látið fyrirberast í gili. Þetta mun hafa verið á góunni. Svo fannst hún ekki fyrr en um vorið, að líkið kom þá undan skaflinum. Þetta var í svokölluðu Blesamýragili í Hvammshaga. Það var mikið leitað.

Svo var það aftur síðar, þá var önnur systir hennar úti í Hvammslandi. Orðsökin var sú – eða sögð sú, að hún var vinnukona í Ásum hjá séra Þorkel heitnum Eiríkssyni og hann var oft með skólapilta að kenna. Og hún tapaði þvotti, því að Ásar, þeir voru þá rétt á bakkanum á svokölluðu Ásavatni sem er áll úr Skaftá. Og svo þegar hún er nýlega búin að hengja upp þvottinn, þá snögghvessir hann og hún tapar þvottinum – það fýkur þvotturinn af snúrunni og hún tapar honum í vatnið. Svo hefur hún trúlegast fengið einhverjar ávítur hjá húsmóður sinni fyrir þetta og hugsað sér svo að daginn eftir, þá ætlar hún að leggja af stað og heimsækja foreldra sína og reyna að fá einhverja bót hjá móðir sinni til þess að geta bætt þetta eitthvað upp, þessar flíkur sem hún tapaði. Svo leggur hún af stað, svona eftir hádegi, þetta er nú líklega svona – ja það er nú alltaf svona fjögurra tíma gangur frá Ásum upp að Búlandi. En svo svona undir kvöldið, þetta var nú í skammdeginu, undir jólaföstu, og þá hvessir hann, kemur ein útnyrðingshrinan og var víst einhver snjór á jörðinni og ofanbylur með. Og hún kemst upp á svokallaðan Hvammshúsaháls og þar finnst hún liðið lík um morguninn af mönnum sem voru að fara í kindahús. Og þá var nú ákaflega stutt heim að bænum Hvammi sem er aðeins fyrir sunnan Búland. En þar varð hún úti.

Og þriðji maðurinn sem ég veit til að hafi orðið úti þarna í Hvammslandi var ungur maður frá Leiðvelli, sem ætlaði upp að Snæbýli og fór seint um kvöld frá Borgarfelli, í nokkurskonar forboði, því veðrið var ekki gott, svona útnyrðingsrok og mátti búast við éljum. En honum héldu engin bönd og hann rauk af stað. Og svo fannst hann daginn eftir upp í Hvammstorfunni. Það var farið að Snæbýli að leita, því bændurnir á Borgarfelli töldu víst að hann hefði ekki haft það upp að Snæbýli og fóru að athuga það strax. Og svo fannst hann upp í Hvammstorfunni.

Fjórði maðurinn sem ég hef heyrt talað um, varð úti líka, var af þessari sömu Búlandsætt. Það var kona, hún hét Þorgerður og bjó í Svartanúpnum. Ég man ekki alveg hvort að maðurinn hennar var dáinn eða í útveri. Hún ætlar að jarðarför móður sinnar, og fer að Búlandi, en það var illa liðað heima, ung börn og annað, og hún varð því að komast heim, en það var samt ekki nógu gott veðurútilit. Og hún leggur af stað um kvöldið. En þá gerði eina útsinnina og hún varð úti í Króknum sem kallað er, en það er í Búlandslandi.

Svo er fimmti maðurinn, það gerðist nú mikið síðar, 1913, líklega. Hann varð úti í Núpshrauni. Bergur Bergsson frá Kálfafelli í Fljótshverfi, var þá vinnumaður hjá bróður sínum, Einari í Svartanúpnum. Í þessu sinni gerði útnyrðingshrinu, hann hafði labbað frá bænum, en þá var vatnið á haldi sem kallað var, hann hafði farið austur yfir vatnið og lent svo í hraunholu og þar fannst hann daginn eftir.

(Eftir sögn Vigfúsar Gestssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar (SÁM 90/2307): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012454

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.