Þórishaugur

Í Reynishverfi heitir ein jörð Þórisholt. Þar í túninu er lágur og kringlóttur hóll sem heitir Þórishaugur. Þar er sagt að sá Þórir sem bærinn er við kenndur sé heygður, og hefur þá haugur þessi mátt vera allmikill því hóllinn er tuttugu og tveir faðmar ummáls; alsettur er hann utan með smáþúfum. Farnir eru viðirnir líklega að fúna því mjög er haugurinn orðinn lágur og talsverð lág ofan í miðjuna. Kona sem uppalin er í Þórisholti segir að lágin í kollinum á haug þessum hafi vaxið síðan hún var barn, og sá sem þar býr nú, gáfaður og eftirtakasamur maður, ber þetta ekki til baka.¹ Engin merki sjást til að haugur þessi hafi verið grafinn upp (Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 350).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.