Um uppruna Hörgslandsmóra

Hörgslands-Móri. Nokkrar ólíkar sögur fara af uppruna draugsins Hörgslandsmóra. Hér segir Rannveig Einarsdóttir (1895-1990) frá Strönd í Meðallandi þá sögu sem hún heyrði um uppruna hans. 

Það var sagt að það hefði komið maður að Hörgslandi og beðið um að fá að drekka. En konan, hún hafi ekki viljað gefa honum að drekka og vísað honum í lækinn, sagt að hann gæti fengið sér að drekka þar. En það var álit manna að hann hefði sent þennan mórrauða hund, sem að þurfti mat. Og ef að húsmóðirin gaf honum ekki fyrst að éta, þá fór hann með lappirnar upp á þverbitann í eldhúsinu, þar sem hún var að hugsa um matinn. Hann var svo ágengur að hún varð að láta hann hafa fyrstan mat. Hann skemmdi sjaldan en sást oft á undan þeim sem hann fylgdi.

Frásögn Rannveigar Einarsdóttur frá Strönd í Meðallandi. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í apríl 1974 (SÁM 92/2594): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1015138

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.