Útilegumenn í Mýrdal

Útilegumenn komu óvænt í heimsókn

Sigurður hét prestur til Reynisþinga í Mýrdal og bjó á Heiði.¹ Sigríður hét kona hans. Einhvurn sunnudag um vertíð reið hann til Reynis að messa. Kona hans var heima og vinnukona og ung stúlka er Anna hét. Um kvöldið í hálfrokknu gengu menn þar inn í bæinn, því hann var opinn. Þeir voru sex eða níu og gengu hvur eftir öðrum inn á baðstofugólf. Þeir vóru í svörtum slyppum með síða hattkúfa ofan á nef. Þeir töluðu ekki orð. Mátti ógjörla virða þá fyrir sér því dimmt var, enda urðu þær hræddar mjög er þeir komu inn.

Önnu varð þó skjótt til ráða. Hún leit í gluggann, leit síðan til húsmóður sinnar og sagði snöggt: „Komi þér út presturinn kemur og einhvurjir með honum.“ Þá þutu hinir ókenndu menn-allir út. Skipti þetta engum tíma. Þegar þeir voru komnir út lokaði Anna bænum, og þar sátu þær kyrrar inni þar til prestur kom heim. Var margt um þetta talað, og héldu flestir að þetta hefðu verið útilegumenn sem hefði þarfnazt nokkurs úr byggð, t. a. m. elds. Ekki varð vart við þá meir. — Upp af Mýrdal er annars sagt að sé mjög mikil fjöll og ill yfirferðar sem að ofanverðu aldrei eða víst sjaldan eru könnuð, og þá er hraun með jöklinum sem enginn veit hvað hefir að geyma. Eftirleitarmenn undan (Eyjafjöllum?) komu einu sinni í vesturbrún þess og fundu þar stóran skaflaskeifuhelming mjög ryðugan, en þangað koma aldrei byggðarhestar nú á dögum.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 4, bls. 259).

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.