Vofan í Pétursey

Vofan náði stúlkunni

Borið hefur það við nú í manna minni að unglingar hafa óskiljanlega villzt frá bænum í Pétursey og hafa stundum fundizt, en stundum hafa þau drukknað í á þeirri er Hafursá heitir. Rennur hún skammt fyrir austan oft nefnda Pétursey svo að búfjárhagar téðrar jarðar liggja fram með ánni.

Það var í Pétursey að kona sem nú er á lífi var unglingur; bar þá svo til þegar konurnar í Pétursey voru um nótt, eins og þeirra siður var, að sjóða kjöt til jólamáltíða þá ætlaði stúlkan að fara til kerlingar sem oft var vön að gefa henni bita og var að kalla í næsta húsi svo eftir sömu stétt var að ganga. Dimmt var, en þegar stúlkan var við dyrnar þar sem hún ætlaði inn sá hún strák nokkurn stóran sem nálægðist og þegar hann var kominn þar sem stúlkan stóð sýndist henni handleggir allt í einu koma út úr vofu þessari. Tók þá vofan yfir um stúlkuna og stappaði henni niður tvisvar eða þrisvar á stjéttinni eins og þegar stappað er í poka, sleppti síðan stúlkunni og hvarf, en stúlkuna sakaði ekki.

(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 3, bls. 420).

 

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.