Brytinn fannst dauður í lækjum sem nú heita Brytalækir
Ólafur er maður nefndur; hann var bryti í Skálaholti. Hann varð einu sinni fyrir reiði ráðskonunnar og stefndi hún honum burt af staðnum með fjölkynngi sinni. Ólafur hljóp þá suður um heiði og kastaði öllum lyklum staðarins í fell það er síðan er kallað Lyklafell og stendur á takmörkum Árnes- og Gullbringusýslna. Ólafur snéri þá aftur er hann var laus orðinn við lyklana og fór um skarð það sem við hann er kennt og Ólafsskarð heitir. Hélt hann ferðinni austur í Skaftafellssýslu og fannst dauður hjá Brytalækjum, en þeir renna í Hólmsá sem fellur vestanvert við Skaftártungu og út í Kúðafljót.
(Íslenzkar Þjóðsögur og ævintýri/safnað hefur Jón Árnason; Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954-1961, 2, bls. 84).