Forspá Jóns Steingrímssonar

Prestsbakkakirkja

Séra Jón Steingrímsson spáði því á banalegunni að kirkjan á Kirkjubæjarklaustri yrði flutt að Prestbakka.

Hinn nafnkunni prófastur, séra Jón Steingrímsson, bjó að Prestsbakka á Síðu, þar sem jafnan hafði verið hið ákveðna prestssetur; en þar var þá engin kirkja og hafði aldrei verið. Þar dó hann árið 1791.

Þegar séra Jón lá banaleguna, spáði hann því, að kirkjan á Kirkjubæjarklaustri mundi síðar verða flutt að Prestsbakka, og skyldu menn hafa það til sannindamerkis, að þegar lík hans yrði flutt til greftrunar að Klaustri, mundi hesturinn hnjóta undir kistunni, og á þeim stað yrði kirkjan reist. Það stóð heima, að hesturinn, sem bar líkkistu prófasts til greftrunar, hnaut svo sem 40 föðmum neðan við bæinn á Prestbakka, og þar var hin nýja kirkja reist 70 árum síðar.

Sömuleiðis sagði séra Jón í banalegu sinni, að á greftrunardegi þriggja eftirmanna sinna mundi verða fádæma óveður. Þetta rættist ekki um séra Berg Jónsson, sem dó 1852 en aftur á móti um þá þrjá Prestbakkapresta, er síðar hafa dáið, en það voru þeir séra Páll faðir minn, er dó 2. nóv. 1861, séra Þorvarður Jónsson, er dó 28. sept. 1869, og séra Jón Sigurðsson er dó 15. des. 1883.

(Sögn Jóns Pálssonar ((1832-1925) frá Hörgsdal á Síðu. Gríma hin nýja: Safn þjóðlegra fræða íslenzkra/ Þorsteinn M. Jónsson gaf út (2. prentun ed.). Reykjavík: Þjóðsaga 1979, 4, bls. 41-42).

Forspá sr. Jóns rættist en 1859 var kirkja risin á Prestsbakka en kirkjan á Klaustri var að fara undir sand. (Eig. Jón Þorbergsson)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.