Forni Dynskógabúinn

Skipbrotsmanninum var vísað að Höfðabrekku
Einhverju sinni var skipbrotsmaður skipreka á Mýrdalssandi. Skip hans hafði strandað og hann einn komst lífs af. Veður var slæmt og skyggni lítið, svo hann ráfaði um og vissi ekkert hvert hann átti að fara. Allt í einu sér hann mann koma á móti sér. Maður þessi var heldur fornlega klæddur og benti skipbrotsmanninum að koma með sér, þegjandi og hljóðalaust. Koma þeir að húsi einu, lágreistu og fornfálegu og fara þar inn. Skipbrotsmaðurinn fær að þurrka föt sín, svalar hungri sínu og legst til hvílu. Daginn eftir er blíðskaparveður og býr skipbrotsmaður sig til ferða. Bjargvættur hans bendir honum í átt að Höfðabrekku, að þangað skuli hann fara til þess að láta vita af sér. Skipbrotsmaður þakkar fyrir sig og heldur áleiðis til Höfðabrekku. Hann er kominn stuttan spöl þegar hann snýr sér við og ætlar að veifa bóndanum. En þá sér hann ekkert nema svarta sandauðnina og hvorki tangur né tetur af bjargvætti sínum.

Hvað þessa sögu varðar er hjálpsami ókunni maðurinn talinn vera íbúi gamla Dynskógahverfisins en það er nefnd sú byggð sem talin er að hafi verið á því svæði sem Mýrdalssandur þekur nú.

(Sögn eftir minni og stílfært af Sigrúnu Lilju Einarsdóttur, úr óbirtri ritgerð Kyngimögnuð náttúra – Þjóðsögur og sagnir, bls 135 )

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir á Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.