Sögur fara af því að blómleg huldufólksbyggð hafi verið við Kálfafellskot í Fljótshverfi. Hér segir frá því þegar hjónin Filippus Stefánsson og Þórunn Gísladóttir ljósmóðir, ábúendur í Kálfafellskoti, reyndu að rækta kálgarð á hlaði huldufólksins.
Árið 1877 létu hjónin í Kálfafellskoti, Filippus Stefánsson og Þórunn Gísladóttir, byggja kálgarð fyrir vestan bæinn. Lega garðsins var mjög góð og mjög vel spratt í honum, en svo óheppilega vildi til, að hvernig sem reynt var að verja garðinn, misheppnaðist það ætíð. Gekk svo í fjögur ár. Sumarið 1881 var sérlega gott og garðurinn óvenjulega blómlegur, ætluðu eigendur hans víst eigi að láta fara á sömu leið og vant var. En um miðsumarleytið komst ær ein um nótt í garðinn og stórskemmdi hann. Skömmu síðar dreymir Þórunni húsfreyju, að hún þykist stödd úti á hlaði. Ber þar að mann einn. Hann tekur hana tali, og berst talið að væntanlegri garðuppskeru. Kvartar Þórunn undan slysi því, er einlægt verði með garðinn góða. Maðurinn segir, að hún þurfi líklega aldrei að búast við uppskeru úr garðinum þeim, því að hún hafi látið byggja hann rétt í hlaðinu hjá sér. Ekki gaf Þórunn sig að þessum draum.
Næsta vetur var aflað hraungrjóts, og átti að girða hann um vorið. Þórunn var yfirkomin af brjóstveiki um þessar mundir, og ætluðu menn, að sullur hefði sprungið í lungunum. Eitt kvöld um vorið segir hún við pilta sína: ,,Nú skuluð þið girða sáðgarðinn á morgun, því að mig langar til að setja í hann innan skamms, þó að ég sé ekki góð fyrir bjóstinu.“ Um nóttina dreymir hana sama manninn og sumarið áður: ,,Illa gjörir þú,“ segir hann, ,,að þú ætlar að þreyta við sáðgarðinn, og er vísast, að þú hafir ekki betra af því.“ ,,Ekki vil ég hætta á það,“ þykist Þórunn segja, ,,og læt ég heldur hætta við garðinn.“ ,,Þá gjörir þú vel,“ segir hann. Dregur hann þá upp hjá sér glas og segir, að hún skuli súpa á þessu; það sé vísast að það reynist gott fyrir brjóstið. Var síðan hætt við garðinn og sléttað yfir torfgirðinguna, en Þórunni fór dagbatnandi brjóstveikin og var alheil skömmu síðar.
(Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson. Gráskinna hin meiri I. Reykjavík: Þjóðsaga, 1962, 187.)