Hér segir Þorbjörn Bjarnason frá Heiði á Síðu frá furðuskepnu sem hann og fleiri sáu í Fjarðárgljúfri.
Árni sýslumaður Gíslason bjó á Kirkjubæjarklaustri en hafði annað bú í Holti á Síðu. Einu sinni voru vinnumenn hans á ferð yfir Fjaðráraura og þá sáu þeir gráan kálf og héldu að hann væri frá bæjunum þar í kring. En það var nú ekki, svo að þeir tóku fyrir það að elta hann og ætluðu að reka hann yfir ána. En hann hélt alltaf áfram á undan þeim og upp að fremsta hylnum í ánni og þar setti hann sig á kaf og hvarf. Svo nokkru seinna sáu hann aðrir sem voru á ferð þarna og höfðu sömu aðferðina en hann slapp alltaf í ána. Og þeir gátu ekki greint hvaða skepna þetta væri en það líktist helst kálfi, gráum kálfi.
Svo þegar ég var á Heiði, þá var ég að smala og var nú með tvo góða fjárhunda. Þá sé ég þessa skepnu á gljúfurbarminum við Heiðargljúfur og sendi hundana en þeir fóru ekki nema þangað sem hún var og stóðu þar urrandi, en hún hvarf ofan í gljúfrið. Svo að ég hugsaði með mér að ég skildi þó vita hvaða skepna þetta væri og fór ofan í gljúfrið og var með góða broddstöng og hugsaði að mér dygði nú báðir hundarnir og stöngin. En það fór svo að ég leitaði í hverjum skúta og ég gat ekki fundið neitt. Svo að ég fór við svo búið. Svo var það aftur seinna að ég var að smala í þoku, og sé þá þessa skepnu austur í svokölluðum Austurás. Þá var ég með sömu hundana og sendi þá eftir henni. Hún rölti í hægðum sínum vestur yfir ásinn og hvarf þar en hundarnir fóru ekki lengra en þar sem hún var og stóðu þar urrandi og ómögulegt að koma þeim lengra. En síðan hef ég ekki orðið var við hana, enda hef ég ekki verið á Heiði þann tíma.
(Sögn Þorbjörns Bjarnasonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í október 1970 (SÁM 90/2336): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1012811