Krossinn í Kaldaðarnesi

Fyrsti lútherski biskupinn tók niður krossinn í Kaldaðarnesi. Það varð hans bani. 

Herra Gissur tók ofan krossinn í Kaldaðarnesi, á hvern þeir höfðu lengi heitið og margar heitgöngur til hans gengið úr öllum sveitum. Hann stóð þar í kórnum allt til daga herra Gísla, þá var hann hafður heim í Skálholt og þar sundur klofinn og brenndur. Þeir hinir gömlu sóttu þá eftir að ná spónum eða öskunni af honum og létu innan í knýtilskauta. Hann setti og í afvikinn stað skrínið, því á mínum dögum þá fóru til hinir gömlu og struku á sér lófann um skrínið hér og líkneskju, og svo um augun á sér síðan, eða þar sem þeir höfðu nokkuð mein á sér, en ef þeir næði því að ganga undir skrínið (það skeði á dögum fyrri biskupa), þá skyldi það vera full aflausn þeirra synda og með öllu hreinir. Þeir höfðu hér prócessíur, að þeir kölluðu, og báru skrínið, en stundum Þorláks-hönd, í kringum kirkjugarðinn og gekk þá allt fólk eftir með söng og lestrum. – Það verður ekki allt skrifað.

Í þeirri ferð þá herra Gissur reið frá krossinum og hann hafði hann ofan tekið kenndi hann sinnar banasóttar. Þeir eldri útlögðu það svo að guð hefndi á honum þess það hann hefði tekið ofan krossinn. Með þeim reið hann heim í Skálholt. Hvað lengi hann lá veit ég ekki. Hann fékk góðan afgang og vitið og mál allt til dauða. Hann fór á fætur á meðan hann var þjónustaður og sat í biskupsstólnum á meðan. Hann fékk af á föstu, anno 1548, í biskupsbaðstofunni þar biskup Stefán hafði áður andast, anno 1518. Hann var grafinn í kirkju, sem áður er sagt.

(Biskupsannálar Jóns Egilssonar, 7. kafli. Birt í: Safni til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju, I, bls. 87-88.)

Hér er frásögnin tekin úr: Íslenskt þjóðsagnasafn. 3. bindi. Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík, Vaka-Helgafell. Bls. 322-323.

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.