Nykur í Fljótsbotni

Fljótsbotninn við Botna

Talið var að nykur í nautslíki færi á milli vatnanna Trjágróf og Fljótsbotns í Meðallandi. Eyjólfur Eyjólfsson frá Hnausum í Meðallandi segir hér frá reynslu vinnumanns á æskuheimili hans í Botnum, sem taldi sig hafa séð nykurinn. 

Í grend við Botnabæinn, skammt fyrir vestan hann, er smástöðuvatn sem að Trjágróf heitir og annað nokkuð norðar sem heitir Fljótsbotn. Þegar ég var drengur að alast upp í Botnum þá voru þar gamlir menn sem lengi voru búnir að vera þar. Annar var venjulega smali. Hann var að reka kýrnar einu sinni, einmitt á milli þessara vatna. Þegar hann kemur svo langt frá bænum, að hann sá ekki heim, það er svolítil bunga á milli, þá sér hann grátt naut koma að sunnan, úr stefnunni suður úr Trjágróf og stefndi norður í Fljótsbotn. Hann verður fyrst og femst dauðhræddur um það að þetta gráa naut kæmist í kýrnar og þá væri nú ekki að sökum að spyrja, þá gat verið að það færi með þær allar niður í Fljótsbotn og þá væri út um þær. En sjálfur var hann svo hræddur að hann hljóp heim og segir söguna, og karlmenn bæjarins fóru, sem gengið gátu víst, til þess að reyna að ná þessu nauti úr kúnum. En þegar þangað kom þar sem kýrnar voru, þá fundust þær náttúrulega allar, en nautið sást ekki. ,,En sú mildi“ sagði gamli maðurinn, ,,en sú mildi að nautið skyldi ekki fara með þær allar niður í Fljótsbotn.“ Fljótsbotn þessi var niðurgrafið stöðuvatn með hálfgerðum hamraveggjum og það var mikil trú á því að það væru nykrar í þessu vatni.

(Sögn Eyjólfs Eyjólfssonar. Viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar í júní 1964 (SÁM 84/58): https://www.ismus.is/tjodfraedi/hljodrit/1000999

Það er fagurt við Fljótsbotninn hjá Botnum (Ljósm. LM)

Tengdar sögur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri

Um vefinn

Vefurinn Sagnir af Suðurlandi er safn þjóðsagna sem gerast á Suðurlandi.