Voru fleiri í verslunarhúsinu?
Það var einu sinni að Sigfús á Geirlandi var í veiðiferð með Jóni bróður sínum við ósinn [Skaftárós í Meðallandi]. Höfðu þeir lokið veiðinni og fóru að verzlunarhúsinu til að hafa fataskipti, því þeir voru holdvotir. Gangur er eftir húsinu miðju og stigi við enda hans. Sölubúðin öðrum megin en lítið herbergi hinum megin, sem sofið var í þegar legið var við þar við verzlunarstörf eða upp-eða útskipun við Skaftárós.
Þegar þeir bræður eru inni í litla herberginu að fara í þurr föt, heyra þeir að hurð er opnuð og gengið inn ganginn og stigið föstum skrefum í gólf og síðan gengið upp stigann, á loftið. Var auðheyrt að sá var allvel stígvélaður, sem þar var á ferðinni. Kölluðu þeir bræður og spurðu, hver væri þar, en ekki var svarað. Fór þá Jón upp á loftið til að gá hver væri kominn, en þar var þá enginn. Hélt hann þá að komumaður hefði læðzt niður aftur og fór því niður og út, gekk í kringum húsið og leitaði hans, en þar var þá enginn maður.
Kom Jón inn aftur og var honum brugðið svo að hann var hvítur í framan – enda gat enginn lifandi maður hafa verið þar á ferð.
(Sögumaður: Siggeir Lárusson. Skrudda. Sögur, sagnir og kveðskapur/ skráð hefur Ragnar Ásgeirsson. Reykjavík, Búnaðarfélag Íslands gaf út, 1957: 267-268)