Það var reimt í námunda við gamla kirkjustaðinn á Skarði við Hnausagötuna. Þar var loðni maðurinn grafinn og þar blésu upp mannabein í kirkjugarðinum. Hér segir af ferðum fólks um þessa leið, meðal annars af ferð Vilhjálms á Hnausum og af manni sem varð svo hræddur að hann sat allt nóttina í bíl sínum.
Héðan er stutt í Skarðskirkjugarðinn, þetta er nú eiginlega örstutt. Hér voru allar leiðir stikaðar með krossmörkum og það var eins og draugarnir kæmust ekki yfir þessar stikulínur- mönnum var óhætt ef þeir fóru ekki suður fyrir Hnausagötuna. Hún lá hjá Skarðskirkjugarðinum og þar voru stikurnar allar sunnanvið götuna og væri ekki farið suðurfyrir götuna þá var öllu óhætt, en svo aftur gátu menn verið komnir á vald drauganna ef farið var suðurfyrir. Það styrkti mikið þessa trú að séra Jón á Hnausum sem bjó hérna frá 1804 til 1822 fór um haust á hesti sem hann fékk lánaðan suður í Meðallandi, villtist suður fyrir götuna og fannst svo dáinn hjá Beraflóðinu. Hann hafði verið að gera við gömlu torfkirkjuna sem þá var á Langholti. Það var nú haft á orði að hann þótti nú ekki láta sér allt fyrir brjósti brenna.
Þeim var alltaf alveg bölvanlega við það Hnausamönnum að menn færu þessa leið í dimmu. Eitt sinn kom Ingimundur Eiríksson hreppstjóri á Rofabæ að Hnausum þegar orðið var dimmt og var að fara út í Meðalland. Það vildi nú að hann gisti fólkið, en hann taldi sig þurfa að fara heim og fór nú eiginlega í hálfgerðu forboði. En hann sagði það á eftir að hann ráðlegði engum að vera þarna einum í dimmu. Svo einhvers hefur karl orðið vísari, hann sagði aldrei meira um það.
Einu sinni fór pabbi þarna einn á hesti í svartamyrkri, það var þegar Hilaría strandaði 1934. Hann var þá einmitt nýbúinn að lesa þjóðsöguna um loðna manninn á Skarði. Þegar hann kom þarna út á leirurnar fór hann að sjá einhverjar eldglæringar, en hann komst nú áfram. Hann sagðist hafa verið að spekulera hvort þetta hefði verið fyrir augunum á sér, eins og hann sæi eldglæringar.
Mela-Möngu er blandað inní þjóðsöguna um loðna manninn á Skarði, en hún var ekki þar.
Já, þarna þótti vera alveg háskalega reimt. Ég komst sérstaklega í tæri við þetta einu sinni. Þá var ég fimmtán ára gamall að fara með spýtur sem að átti að koma út að Melhól, fór með þær á einum hestvagni út að Langholti og reið öðrum, þetta voru jarpir hestar sem alltaf var verið að nota og kunnu bara ekki að hræðast. Og svo þegar ég er kominn þarna upp fyrir Langholt þá er ég lentur í svarta myrkri. Þá voru þetta mest sléttar leirur þegar kom þarna upp í sandana, allt annað land en nú er því nú er þetta allt gróið. Þegar ég fór í gegnum melabeltið þá leist mér ekki nógu vel á, því að klárarnir sáu eitthvað sem þeim leist alveg djöfullega á og það mátti til að vera sunnan við götuna. Þeir voru allir á skakk og munaði ekki miklu að þeir fældust. En svo þegar ég var kominn í gegn um melabeltið þá varð þetta í lagi, og það var líka í lagi þegar ég fór rétt hjá kirkjugarðinum. Ég bjóst nú ekki við góðu þar. En ég lét mig nú hafa þetta og gekk nú allt vel þangað til ég fór að nálgast bæinn, var kominn upp í grösin. Þegar ég var að taka vagninn þar frá, þá ruglaðist ég á áttum og tók svo ráðin af klárunum og kom upp að Eldvatni miðja vegu hérna milli Hnausa og Feðga. Þegar ég fór að verða var við vatnið tók ég fyrir að ég bara fór af baki og stoppaði og þá allt í einu rann upp fyrir mér hvar ég var og vissi alla hluti, það birti nú líka heldur. En þeir urðu fegnir klárarnir þegar ég sneri heim, þurfti náttúrulega aldrei annað en láta þá ráða. Það var sérstaklega loðni maðurinn á Skarði sem þarna átti að vera á ferðinni. Sýslumaðurinn skipaði prestinum að jarða hann og athöfnin snerist öll upp á óvininn. Seinast drifu þeir hann í jörðina, en hann gekk strax aftur og átti að hafa hálsbrotið tvo presta á kirkjuþröskuldinum, þeir hafa náttúrulega sennilega búið hjá kirkjunni svo þeir hafa lent meira fyrir draugsa.
Við gamla Skarðskirkjugarðinn blésu oft upp mannabein. Ég heyrði talað um að Stefán á Hnausum hefði stundum sent til að láta grafa þarna niður mannabein. Og maður gróf nú oft mannabeinin niður með höndunum þar sem eitthvert skjól var ef maður var þarna á ferðinni. En beinin voru nú mörg fúin, það var lítið um að maður sæi hauskúpur, aðeins leifar af hauskúpum, frekar voru það nú öðruvísi bein. Kistufjalir voru þarna líka töluvert og það var svo gott efni sérstaklega í einni, það var alveg hægt að sveigja hana. Það var þessi gamla lindifura með þéttu árhringunum. Eins og þetta geti ekki fúnað. Og svo voru þarna einhver ósköp af tönnum. Þær lágu nú með læknum sem rann í gegnum kirkjugarðinn, bara alveg framundir þar sem ræsið í honum er gegnum veginn núna.
Þarna var nokkuð lengi hlið, þeir girtu þarna Langholtsmenn og maður varð að opna það og loka þegar var farið þarna um og það var sumum bölvanlega við þetta hlið í dimmu sko. Ég vissi um einn sem sat þarna alla nóttina og þorði ekki út úr bílnum. Hann hefur eiginlega ekki getað snúið til baka því hann hafði verið að heimsækja kærustuna út í Meðalland og það hefði nú eiginlega ekki verið gott að fara að koma aftur til kærustunnar og segja að hann hefði ekki þorað að opna hliðið fyrir draugahræðslu. Ekki ætla ég að segja neitt hver þetta var, en þetta er algjörlega satt.
Ég hef nú jafnvel heyrt að gæsaveiðimenn hafi þóst verða varir við eitthvað á þessum slóðum, sérstaklega ef þeir eru að stelast þangað, en þó veit ég nú ekki um sönnur á því, algjörlega.
(Eftir sögn Vilhjálms Eyjólfssonar á Hnausum. Guðmundur Óli Sigurgeirsson skráði feb. 2000 Óbirt handrit geymt á Héraðsbókasafninu á Kirkjubæjarklaustri.)